Emil Barja skrifaði í gær undir samning við Íslandsmeistara KR um að leika með liðinu næstu tvö árin. Emil fer frá Haukum, sínu uppeldisfélagi, til að leika með liðinu sem hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn síðustu fimm árin. Við sama tilefni tilkynnti KR að Björn Kristjánsson verði áfram hjá félaginu næstu tvö árin. Emil segir að það séu blendnar tilfinningar í kringum þessi vistaskipti.

„Minn hugur var að vera áfram hjá Haukum eftir síðasta keppnistímabil. Svo fór ég að hugsa málin þegar KR hafði samband. Ég er kominn á þann aldur að það fer að verða of seint að breyta til og fara í nýja áskorun. Það er mjög erfitt að yfirgefa uppeldisfélagið, en ég er spenntur fyrir að spila með KR,“ segir Emil Barja í samtali við Fréttablaðið.

„Það er vissulega skrýtin tilfinning að vera með KR-merkið á brjóstinu, en það mun pottþétt venjast. Ég hef leikið margar harðar rimmur við KR undanfarin ár, en það verður gaman að leika með liðinu. Ég býst við að við Björn verðum í því hlutverki að bera upp boltann, annars get ég spilað mörg hlutverk inni á vellinum. Ég spilaði meðal annars undir körfunni með Haukum á síðustu leiktíð og ég get spilað flestar stöður,“ segir Emil um komandi tíma með KR.

„Það eru þó nokkrar breytingar hér í Vesturbænum, en mér líst vel á þá leikmenn sem eru til staðar og þau plön sem hafa verið kynnt fyrir mér. Það eru miklar kröfur hér í Vesturbænum og ég held að það verði engin breyting á því að okkur muni ganga vel á næstu árum. Þeir hafa reynst okkur erfiðir í gegnum árin og nú heldur liðið vonandi áfram á sömu braut. Nú er bara að fara að æfa vel og koma mér inn í hlutina hjá nýju liði,“ segir Emil enn fremur um framhaldið.