Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, og samherjar hans hjá þýska liðinu Magdeburg hafa verið á góðu skriði undanfarna mánuði en liðið er í þriðja sæti þýsku efstu deildarinnar með 24 stig eins og sakir standa og er sex stigum á eftir Flensburg, sem trónir á toppi deildarinnar og er einu stigi á eftir Rhein-Neckar Löwen sem er sæti ofar.

„Við erum á flottu róli þessa stundina eftir að hafa farið rólega af stað á tímabilinu. Liðið hefur spilað einhverja 15 eða 16 leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa og það hefur verið mikill stígandi í spilamennsku liðsins. Ég hef sjálfur verið að spila mikið og finn fyrir miklu trausti frá þjálfaranum sem er mjög þægileg tilfinning. Ég er hægt og rólega að nálgast mitt besta form og minn fyrri leikstíl, ef svo má segja,“ segir Gísli Þorgeir um gang mála hjá honum sjálfum og Magdeburg.

„Við erum þrír sem skiptum á milli okkar vinstri skyttunni og leikstjórnendastöðunni en það er gott flæði á milli þessara tveggja staða á vellinum hjá okkur. Það er þétt spilað þessa dagana og sem dæmi um það er að við mætum Guðmundi og hans mönnum hjá Melsungen um helgina og svo förum við beint til Rússlands til þess að spila Evrópuleik sem verður þriðji leikurinn á um það bil viku.

Það má í raun segja að síðustu vikur og þær næstu séu eins og þegar maður er á stórmóti með landsliðinu. Það er lítið æft á milli leikja og tíminn í raun mest nýttur í endurheimt, nudd og taktíska vídeófundi. Það er svo sem bara fínt, það er skemmtilegast þegar það eru margir leikir og ég finn ekkert mikið fyrir þessu álagi eins og staðan er núna allavega,“ segir Gísli sem hefur glímt við axlarmeiðsli síðustu þrjú ár.

„Ég finn ekkert fyrir eymslum í öxlinni núna og andlega er ég alveg hættur að pæla í því að ég hafi verið að glíma við meiðsli þar. Ég treysti öxlinni fullkomlega og hægri öxlin er bara í fullkomnu standi. Það tók tíma að venjast því aftur að geta beitt öxlinni almennilega og breyta leikstílnum á þann hátt að það gæti verið skotógn af mér fyrir utan. Það er hins vegar allt að koma og ég er duglegur að vinna í fyrirbyggjandi æfingum til þess að styrkja mig þar, sem og allan skrokkinn auðvitað,“ segir þessi 21 árs gamli leikstjórnandi.

„Magdeburg er að spila handbolta sem hentar mér mjög vel, það er hraðan sóknarleik þar sem mikið er unnið með að vinna stöðuna einn á móti einum. Boltinn er látinn ganga hratt þangað til það er tækifæri til þess að gera árás og sækja á markið. Það er ekkert launungarmál að við erum ekki með hávöxnustu útilínuna en við vinnum það upp með hraða og vel útfærðum sóknarleik.

Þá erum við að verða betri og betri með hverjum leik að skora með seinni bylgju hraðaupphlaupum. Við erum með lið sem getur klárlega barist um titilinn fram á vorið en við tökum bara einn leik fyrir í einu og sjáum hvað setur. Það væri allavega frábært að koma okkur í Meistaradeildina á næstu leiktíð,“ segir hann um framhaldið.

Gísli Þorgeir er samningsbundinn Magdeburg til sumarsins 2023 og hann segir að honum líði vel hjá félaginu og það sé ekkert fararsnið þaðan á næstunni. „Stefnan er bara að standa mig vel hér áfram en svo sjáum við bara til hvað framtíðin ber í skauti sér. Mig langar að spila í Meistaradeildinni og vonandi næ ég að gera það með Magdeburg,“ segir Hafnfirðingurinn.