Svo virðist sem stuðningsmenn skoska félagsins Rangers, sem eru nú staddir í Liverpool borg fyrir leik síns liðs gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu, hafi unnið skemmdarverk á vel þekktu vegglistaverki í borginni af Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.

Athygli er vakin á þessu í færslu á Twitter en liðin mætast í kvöld í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Á mynd sem birt er af vegglistaverkinu á samfélagsmiðlinum Twitter má sjá að hvítri og blárri málningu hefur verið slett á það, yfir Jurgen Klopp.

Klopp hefur, síðan að hann tók við stjórnartaumum Liverpool, skrifað nafn sitt í sögubækur félagsins. Klopp gekk í raðir Liverpool árið 2015 og hefur síðan þá gert félagið að Englandsmeisturum, bikarmeisturum, Evrópumeisturum og deildarbikarmeisturum.

Þá varð Liverpool heimsmeistari félagsliða tímabilið 2019-2020. Áður hafði Klopp gert flotta hluti með þýska úrvalsdeildarfélaginu Borussia Dortmund.