Á körfuboltaferli sínum, sem lauk á dögunum, settist Jón Arnór Stefánsson meðal annars að í Kaliforníu, Dallas, Pétursborg, Napolí, Róm, Malaga, Valencia og Zaragoza.

Síðasti leikurinn var svo með Val að Hlíðarenda. Þar þurfti Jón Arnór að sætta sig við tap gegn uppeldisfélagi sínu, KR, en þar voru andstæðingar hans til að mynda æskuvinirnir Helgi Már Magnússon og Jakob Örn Sigurðarson.

„Þetta byrjaði allt saman í Laugarnesinu. Þar voru körfur úti um allt þegar ég var að alast upp. Finnur Vilhjálmsson, Steinar Kaldal og fleiri góðir menn ruddu brautina í hverfinu og smituðu okkur ungu pjakkana af körfuboltaáhuga.

Svo var NBA-körfuboltaæðið í hæstu hæðum og Michael Jordan var átrúnaðargoðið. Við vorum þarna gengi í Laugarnesinu, ég, Helgi Már, Andri Fannar Ottósson, Hjalti Kristinsson, Björgvin Halldór Björnsson og fleiri sem vorum helteknir af körfunni.

Það var ekkert í gangi í Laugarnesinu hvað körfubolta varðar þannig að við tókum strætóinn í Vesturbæinn og byrjuðum að æfa með KR,“ segir Jón Arnór um upphaf körfuboltaferils síns.

Á Benedikt mikið að þakka

„Fljótlega eftir að við byrjum að æfa þar tekur Benedikt Guðmundsson okkur undir sinn verndarvæng. Við verðum óstöðvandi undir hans stjórn. Við vinnum nánast allt sem hægt er að vinna hér heima og vinnum einnig Scania Cup.

Ég á Benedikt mikið að þakka og hann á stóran þátt í velgengni minni í körfuboltanum. Við erum mjög góðir vinir enn í dag,“ segir hann um uppvaxtarárin í körfunni.

Ljúfar minningar úr Laugarnesinu

„Við systkinin fengum mjög gott uppeldi að heiman. Þar var mikill stuðningur við því sem við vorum að gera án þess að ég fyndi nokkurn tímann fyrir einhvers konar þrýstingi frá foreldrum mínum.

Þau mættu bara á öll mót, studdu mig og vissu upp á hár hvenær ég þyrfti á hvatningu að halda og hvenær ég þyrfti smá aðhald. Mig langar að lýsa hérna þakklæti mínu til þeirra fyrir ómælanlegan stuðning í gegnum ævina.

Það var gríðarlega dýrmætt og var stór þáttur í því að ég náði jafn langt og raun bar vitni.Eggert bróðir og Stefanía systir eru næst mér í aldri og ég á góðar minningar af því að vera að spila fótbolta við þau í Laugarnesinu.

Það var mikil samkeppni inni á vellinum en á sama tíma ekkert nema kærleikur þegar leikjunum lauk. Við vorum bara stolt af hvert öðru. Þarna var Óli bróðir stundum líka og pabbi tók þátt einnig þátt sem var fallegt.

Mamma mín er svo höfuðið í fjölskyldunni og sér til þess að binda fjölskylduna saman.Íris, elsta systir mín, var minna í íþróttum sjálf en hefur stutt vel við bakið á okkur öllum. Keppnisskapið í henni kom svo vel fram á áhorfendapöllunum," segir hann.

Ólafur dýpkaði huga minn

„Ég leit mikið upp til Óla sem íþróttamanns. Ég fékk oft góð ráð hjá honum og fylgdist vel með því sem hann hafði að segja í fjölmiðlum. Hann veitti mér mikinn innblástur og gerir enn í dag.

Á ákveðnum tímapunkti á ferlinum varð ég síðan mjög móttækilegur fyrir nálgun á íþróttir. Þá kenndi hann mér að stækka sjóndeildarhringinn og dýpka valið á því sem ég væri að lesa og pæla í. Ég er ekki mjög djúpur að eðlisfari en fór að pæla í heimspeki út af honum,“ segir hann um Ólaf Indriða Stefánsson.

Þegar ég var að hefja ferilinn sem atvinnumaður saknaði ég þess miklu meira að hafa ekki foreldrana í kringum mig og ég fékk reglulega heimþrá. Þá var bara slegið á þráðinn heim og tekin löng símtöl og þá var allt í góðu.

„Við erum í raun öll þannig systkinin að við þörfnumst þess ekki að vera í daglegum samskiptum. Það geta alveg liðið mánuðir án þess að við höfum samband en svo þegar síminn er tekinn upp þá er bara eins og við höfum spjallað í gær. Það er mikil vinátta og góð samskipti okkar á milli,“ segir hann.

„Þegar ég var að hefja ferilinn sem atvinnumaður saknaði ég þess miklu meira að hafa ekki foreldrana í kringum mig og ég fékk reglulega heimþrá. Þá var bara slegið á þráðinn heim og tekin löng símtöl og þá var allt í góðu.

Á tíma menntaskólans voru bara bréfaskriftir í boði því að það var rándýrt að hringja milli Bandaríkjanna og Íslands. Það var besta tilfinning í heimi að fá bréf sent frá fjölskyldu eða vinum.

Pabbi fór með mér út til Kalforníu þegar ég var á leið í menntaskóla að skoða aðstæður og við áttum góðar stundir þar saman. Mamma og pabbi voru svo dugleg að heimsækja mig þegar ég spilaði erlendis í atvinnumennsku,“ segir Jón Arnór.

Fékk leið á atvinnumennskunni

„Árið 2009 fékk ég svo leiða á því harki sem er í kringum körfuboltann og þráði að flytja heim. Mér leið eins og ég væri tíu árum eldri en ég var. Skrokkurinn var allur lurkum laminn og ég var andlega þreyttur. Það var mjög gott að koma heim í KR og vera nær fjölskyldu og vinum.

Sú ákvörðun lengdi klárlega ferilinn og ég varð ferskur á nýjan leik. Við hefðum getað hugsað okkur að setjast að í Valencia þegar ég samdi þar því okkur fjölskyldunni leið mjög vel þar. Planið var hins vegar alltaf að flytja heim þegar elsta barnið byrjaði í skóla.

Eftir síðasta leikinn núna með Val er ég kominn með algjörlega nóg af körfubolta og ætla ekki að snerta körfubolta næstu árin. Ég er ekki týpan sem fer í bumbubolta og ég er líklegri til þess að hóa saman hóp í innifótbolta eða fara í tennis. Ég hef líka mjög gaman af því að fara í golf,“ segir Jón Arnór sem lék upp yngri flokka Fram í fótbolta.

Hefur áhuga á viðskiptum

„Ég hef starfað sem ráðgjafi og umboðsmaður körfuboltamanna. Sú vinna fullnægir mér hvað körfuboltann varðar. Svo getur vel verið að ég muni smitast af þjálfarabakteríu.

Mér finnst líklegast að það verði einkaþjálfun eða afreksþjálfun á smærri hópum. Þannig myndi ég sjá um einstaklingsþjálfun, ráðgjöf ungra og efnilegra leikmanna og aðstoða þá við að komast á samning í atvinnumennsku,“ segir hann.

„Ég mun hefja MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík í haust. Ég er mjög spenntur fyrir því. Það er mikið frelsi og léttir sem fylgir því að hafa sett körfuboltaskóna á hilluna þó að ég muni klárlega sakna klefa­stemningarinnar og spennunnar sem fylgir því að vera í liði sem er að keppa að einhverju.

Langtímamarkmiðið er svo að vinna eitthvað tengt viðskiptum og fjármálum. Ég hef mikla trú á því að körfuboltaferillinn muni nýtast mér mjög vel í að taka þátt í fyrirtækjarekstri og verkefnastjórnun í viðskiptaheiminum.

Næst á dagskrá er hins vegar að eiga gott sumar með fjölskyldunni. Það hefur lent á konunni minni hingað til að halda heimilinu gangandi meðan ég hef fengið að einbeita mér að körfunni. Sá stuðningur er ómetanlegur og ég hlakka til að eyða meiri tíma með þeim.

Ég man sjálfur vel eftir kvöldmáls­tímanum sem ég ólst upp við, þar sem öll fjölskyldan sat saman og átti góða stund. Það er dýrmætt en hefur oft verið erfitt að njóta saman þegar ég er að æfa eða keppa á sama tíma. Nú stendur til að bæta úr því og það er komið að mér að leggja meira í púkkið á heimilinu.

Konan mín hefur verið kletturinn í fjölskyldunni og séð um að heimilislífið gangi smurt. Hún er algjör gullmoli og ég er ofboðslega heppinn að eiga hana að. Það er frábært að fylgjst með börnunum mínum vaxa og dafna.

Konan mín hefur verið kletturinn í fjölskyldunni og séð um að heimilislífið gangi smurt. Hún er algjör gullmoli og ég er ofboðslega heppinn að eiga hana að. Það er frábært að fylgjst með börnunum mínum vaxa og dafna.

Það sem er sorglegt þegar ég er að fylgjast með íþróttaiðkun eldri barnanna minna er að það hefur nánast ekkert breyst í aðstöðumálum í Laugarnesinu. Sem gerir það að verkum að strákurinn æfir körfubolta hjá KR.

Við keyptum okkur hús á æskuslóðum mínum og aðstaðan hjá Þrótti og Ármanni er eiginlega alveg eins og þegar ég var að byrja minn feril. Það er lélegt og borgaryfirvöld og ríkið þurfa að spýta rækilega í lófana hvað það varðar,“ segir hann.

Frábær tími í Berlín og Finnlandi

Aðspurður um hápunkta á ferlinum nefnir Jón Arnór fyrst til sögunnar þátttöku íslenska landsliðsins á Euro Basket 2015 og 2017.„Það var algerlega magnað að fara á þetta stóra svið með félögum manns sem maður hafði verið að spila mörgum hverjum með upp öll yngri landsliðin.

Eftir að hafa verið að selja klósettpappír til þess að geta tekið þátt í mótum með yngri landsliðunum vorum við komnir á eitt af stærstu sviðunum.Við vorum smá stjörnustjarfir fyrst þegar við mættum og kannski meira samherjarnir sem voru ekki vanir að vera í kringum þessar stóru stjörnur.

Við vorum smá stjörnustjarfir fyrst þegar við mættum og kannski meira samherjarnir sem voru ekki vanir að vera í kringum þessar stóru stjörnur. Við stóðum okkur svo frábærlega og þetta var mikil lyftistöng fyrir íslenskan körfubolta. Þetta var eitthvað sem við gátum ekki látið okkur dreyma um framan af landsliðsferlinum mínum.

Það var líka frábært að sjá félaga manns, fjölskyldu og vini úr körfuboltasamfélaginu mæta til Berlínar og Finnlands og taka þátt í þessu af lífi og sál með okkur,“ segir landsliðsmaðurinn fyrrverandi stoltur.

Ferill Jóns Arnórs hófst með æskuvinunum í Laugarnesinu og nú hefur hann sest þar að með fjölskyldu sinni.