Vanda hefur verið í embætti í tvær vikur, en hún er formaður í bráðabirgðarstjórn sem var kosin til starfa eftir lætin í Laugardalnum. Guðni Bergsson og stjórn KSÍ sögðu af sér eftir að hafa legið undir ásökunum að hylma yfir meint kynferðisbrot landsliðsmanna.

Vanda var í ein í framboði þegar kosið var til bráðabirgða en ársþing KSÍ fer fram í febrúar þar sem formaður verður kjörinn til tveggja ára. Einhverjir höfðu íhugað að bjóða sig fram til bráðabirgða, en ákváðu að hætta við og því gekk Vanda ein til framboðs. Vanda hefur sagt frá því að hún fari aftur fram og muni sækjast eftir endurkjöri.

Brynjar Níelsson datt af þingi á dögunum en að undanförnu hafa nokkrir aðilar viðrað þá hugmynd við hann að hann bjóði sig fram til formanns KSÍ í febrúar. „Ég kannast við þetta, þegar menn eru atvinnulausir þá koma oft hugmyndir frá öðrum," sagði Brynjar í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Það er búið að viðra nokkrar hugmyndir við mig. Ég get ekki sagt að ég hafi skoðað KSÍ framboð mjög alvarlega. Eina sem ég hef sagt er að ef það er almennur áhugi fyrir því í hreyfingunni, þá er ég klár í að skoða það.“

Brynjar þekkir störf knattspyrnuhreyfingarinnar vel en hann sat í stjórn Vals á árum áður.

Ekki er talið útilokað að Guðni láti til skara skríða á nýjan leik.

Margir einstaklingar eru nú orðaðir við framboð í febrúar. Auk Brynjars hefur Fréttablaðið heyrt nafn Ríkharðs Daðasonar nefnt til sögunnar. Þá telur heimildarmaður Fréttablaðsins innan raða KSÍ ekki útilokað að Guðni Bergsson sækist aftur eftir starfinu.

Guðni hafði verið formaður sambandsins í fjögur ár þegar hann sagði af sér. Innan knattspyrnuhreyfingarinnar á Guðni marga stuðningsmenn.

Ljóst er að enginn mun stíga fram og boða framboð sitt á næstunni fyrir utan Vöndu. Það gæti orðið að veruleika þegar líður að áramótum. Á bak við tjöldin eru málin hins vegar rædd. Íslenskur toppfótbolti sem eru hagsmunasamtök félaga í efstu deildum karla og kvenna munu hafa mikið um málið að segja.

ÍTF eiga stærstan hluta atkvæða á ársþingi KSÍ og ef þau eru nokkuð samstíga geta þau farið langt með að tryggja "sinn" mann til starfa.