Slóvenska tenniskonan Dalila Jakupovic neyddist til að hætta keppni vegna öndunarerfiðleika í fyrstu umferð á Opna ástralska meistaramótinu í tennis vegna reyks frá áströlsku skógareldunum.

Opna ástralska meistaramótið í tennis, eitt af risamótum ársins í tennis hófst í nótt en einhverjum leikjum var frestað vegna loftgæða. Mælingar sýndu að loftgæðin í Melbourne voru þau verstu í heiminum í nótt.

Jakupovic sem er í 180. sæti á heimslistanum var að vinna leik sinn gegn Stefanie Voegele þegar hún hneig niður í hóstakasti. Læknir fékk Jakupovic til að halda áfram en hún hætti leik stuttu síðar þegar hún sagðist ekki geta náð andanum.

Maria Sharapova sem var um tíma efst á heimslistanum í tennis, þurfti að hætta í æfingarmótinu Kooyong Classic gegn Laura Siegemund í aðdraganda mótsins vegna loftgæðanna.