Á dögunum samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings að leggja til að svæði við Egilsstaðakirkju yrði ráðstafað sem framtíðaríþróttasvæði á aðalskipulagi næstu árin. Um er að ræða svæði sem Höttur, íþróttafélagið á Egilsstöðum, hefur haft augastað á til uppbyggingar sem framtíðarsvæði félagsins. Tillagan hefur einnig fengið meðmæli hjá byggðaráði en næsta skref er að sveitarstjórn taki málið fyrir. Við mótun hugmyndanna verður horft til þeirra hugmynda sem fulltrúar félagsins hafa lagt fram fyrir sveitarfélagið.

„Við erum ekki búin að festa neinar hugmyndir en það yrði frábært að fá svæði úthlutað til frekari uppbyggingar á íþróttamannvirkjum fyrir félagið. Það eru ýmsar deildir innan félagsins sem þurfa á úrbótum að halda,“ segir Lísa Leifsdóttir, formaður Hattar, aðspurð um beiðnina. Svæðið sem um ræðir er við íþróttahús bæjarins.

„Fyrsta markmiðið er að þetta svæði verði eyrnamerkt til íþróttauppbyggingar. Svo gætum við farið að skoða hvernig hægt væri að nota þetta í samstarfi við bæjaryfirvöld. Með þessu erum við að reyna að bæta aðstöðuna til lengri tíma og horfum áratugi fram í tímann, enda er bæjarfélagið sífellt að stækka.“

Hugmynd að nýtingu svæðisins sem unnin var af nefndinni og lögð fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð og byggða­ráð Múlaþings
mynd/Aðsend

Á síðasta ári var ný viðbygging við íþróttahúsið opnuð sem hefur strax sýnt fram á mikilvægi sitt.

„Félagið er með flott íþróttahús sem hefur reynst vel og í fyrra var tekið í notkun nýtt fjölnotahús sem nýtist sérstaklega vel fyrir fimleika- og frjálsíþróttadeildirnar. Það reyndist algjör bylting í aðstöðu félagsins og um leið fengu aðrar greinar meira rými inn sem gjörbreytti starfi félagsins. Það var unnið í samstarfi við bæjarfélagið og forverar mínir eiga hrós skilið,“ segir Lísa, sem tók við starfi formanns í vor.

„Við erum þrír aðilar sem fengum umboð hjá aðalstjórn Hattar til að kynna þessar hugmyndir fyrir sveitarfélaginu í kjölfar þess að við vorum að skoða framtíðarmöguleika fyrir knattspyrnudeildina til framtíðar. Það er ekki búið að samþykkja þetta af félaginu heldur er þetta fyrst og fremst til þess fallið að sýna fram á að svæðið hentaði til þeirrar uppbyggingar sem félagið horfir til en ekki tillaga að skipulagi eða hönnun svæðisins,“ segir Unnar Erlingsson, einn þeirra sem lögðu hugmyndirnar fyrir sveitarfélagið.

„Það er enn fjölmargt sem þyrfti að vinna að en okkar á milli höfðum við orð á því að í tilefni fimmtugsafmælis félagsins árið 2024 væri gaman að marka tímamótin með slíkum framkvæmdum. Hvort sem það væri með skóflustungu eða fyrsta áfanga nýrrar íþróttamiðstöðvar á Egilsstöðum,“ segir Unnar og tekur undir að með gerð Fjarðarheiðarganga yrði um leið um að ræða byltingu fyrir íbúa Seyðisfjarðar í íþróttaiðkun, í kjölfar þess að knattspyrnuvöllurinn á Seyðisfirði þurfti að víkja vegna uppbyggingar íbúða þar sem völlurinn stóð áður.

„Fyrir okkur á landsbyggðinni eru þrettán kílómetrar ekki langt. Ef þessir þrettán kílómetrar eru í gegnum göng er þetta bara stutt ferðalag,“ segir Unnar léttur í lund. „Þess skal þó getið að enn er líklega áratugur þar til sá áfangi verður að veruleika.“

Unnar segir að nefndin hafi komist að niðurstöðu að ekki væri hægt að bæta æfingarsvæði við Vilhjálmsvöll og fyrir vikið væri mikið álag á aðalvelli knattspyrnudeildarinnar.
mynd/Aðsend

Samkvæmt hugmyndunum sem kynntar voru fyrir sveitarfélaginu er um að ræða íþróttamiðstöð með aðstöðu fyrir fjölmargar íþróttir ásamt knatthúsi sem myndi nýtast öðrum íþróttagreinum.

„Það er ljóst að hvorki svæðið við Fellavöll í Fellabæ, né Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum bjóða upp á mikla stækkunarmöguleika til framtíðar litið. Auk þess sem það er augljós kostur að hafa íþróttafélagið með aðalaðstöðu á einum og sama staðnum. Því varð úr að við lögðum fram tillögur um að fá bæjaryfirvöld til að gera breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og tryggja Hetti svæði til framtíðaruppbyggingar félagsins. Það er staðsett nálægt núverandi íþróttamiðstöð og nýbyggðu fimleikahúsi félagsins og við hliðina á menntaskólanum og býður þannig upp á samnýtingu með skólum bæjarins og heilsustofnunum,“ segir Unnar og bætir við að þessi staðsetning sé nokkuð miðsvæðis þegar tekið sé mið af Egilsstöðum og Fellabæ.

„Á þessu svæði eru miklir möguleikar fyrir félagið til framtíðar litið og spennandi að leyfa sér að hugsa stórt og langt fram í tímann enda íþróttafélagið og sveitarfélagið allt í miklum vexti. Nú tekur vonandi við spennandi tími við nánari útfærslu á þessum hugmyndum með aðkomu allra sem að málinu standa.“