Þegar fimm ár eru í að leigusamningi Fylkis við Reykjavíkurborg um afnot af húsnæði í Norðlingaholti undir starf félagsins, eru viðræður hafnar um hvert næsta skref verður. Á fundi borgarráðs fyrir helgi kom fram að fimleikahús Fylkis væri eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja í Reykjavíkurborg. Meðal þess sem rætt var, var möguleikinn á því að húsnæðið í Norðlingaholti yrði stækkað til að auka rýmið og leigusamningurinn framlengdur en Reykjavíkurborg myndi eignast húsið við lok leigutímans. Þá verður möguleikinn skoðaður á því að reisa nýtt fimleikahús á starfssvæði Fylkis í Lautinni í takt við framtíðarsýn félagsins.

Aðspurð segir Guðrún Ósk Jakobsdóttir, formaður stjórnar fimleikadeildar Fylkis, vera komið upp ákveðið aðstöðuleysi í Norðlingaholti. „Í upphafi var okkur seld hugmyndin um að við hefðum báðar hæðirnar fyrir okkur, en það eru komnar fleiri deildir inn í húsið. Það átti meðal annars að vera auðvelt aðgengi að stúkum en í dag erum við í raun bara með æfingahúsnæði. Við erum með mjög góða æfingaaðstöðu en við getum ekki haldið mót eða jafnstórar sýningar og við hefðum óskað okkur. Það er búið að þrengja að okkur að því leyti að það er varla nein aðstaða fyrir þjálfara eða geymsla.“

Fimleikadeild Fylkis taldi möguleikann um aðstöðu í Lautinni ekki standa til boða fyrr en nýlega.

„Samkvæmt umhverfismati var búið að segja að það yrði ekki raunsætt að byggja fimleikahús í Lautinni. Það væri ekki hægt að bæta umferðinni við þetta svæði, en svo var bakkað með þær fullyrðingar og þá kom Lautin aftur inn í myndina,“ sagði Guðrún, þegar hún var spurð út í möguleikann á flutningum nær félagsheimili Fylkis.

„Það var búið að vinna margar þarfagreiningar og þar sást að það myndi henta okkur best að komast að í Lautinni. Með því gætum við samræmt betur starf okkar við starf félagsins þó að við séum auðvitað í ákveðnu hlutverki að reyna að þjónusta Norðlingaholtið vel.“