Wyke fór í hjartastopp á æfingu með Wigan á dögunum og í viðtali sem birtist á heimsíðu félagsins þakkaði hann þjálfara sínum fyrir að hafa bjarga lífi sínu. ,,Í fyrsta lagi vil ég þakka læknateymi félagsins og heilbrigðisstarfsfólki sem hafa litið eftir mér undanfarna viku. Ég vil sérstaklega þakka Dr. Rob Cooper, lækni hjá hjartadeild Liverpool sjúkrahússins."

,,Ég fór í hjartastopp og beita þurfti endurlífunartilraunum til að ná mér til baka. Mér er sagt að skjót viðbrögð knattspyrnustjórans, sem hóf endurlífgunartilraunir, sem og áframhald meðhöndluna lækna, hafi bjargað lífi mínu. Ég er þeim ævinlega þakklátur," sagði framherjinn Charlie Wyke í viðtali sem birtist á heimasíðu Wigan Athletic.

Nokkrum vikum fyrir atvikið hafði starfslið Wigan Athletic, hlotið þjálfun í beitingu skyndihjálpar. Sú þjálfun hefur heldur betur skilað sér í dag.

Wyke segist þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fundið fyrir síðan að atvikið átti sér stað. ,,Ég hef fengið þúsundir skilaboða frá stuðningsmönnum víðs vegar að, þetta skiptir mig og fjölskyldu mína öllu máli og hjálpar okkur."

Wyke gekk til liðs við Wigan fyrir yfirstandandi tímabil. Hann hefur spilað 17 leiki fyrir félagið, skorað fimm mörk og gefið tvær stoðsendingar.