Á sínu fyrsta tímabili báru Guðjón og lærisveinar sigur úr býtum í Framrúðubikarnum en liðið hafði betur gegn Bristol City í úrslitaleik fyrir framan rúmlega 75.000 áhorfendur á Wembley. Brynjar Björn Gunnarsson, Bjarni Eggerts Guðjónsson og Arnar Bergmann Gunnlaugsson spiluðu þann leik en Bjarni átti ríkan þátt í undirbúningi á sigumarkinu sem Peter Thorne framherji liðsins skoraði.

Aðalmarkmið tímabilsins var hins vegar að komast upp úr ensku C-deildinni en það tókst ekki að þessu sinni. Sama var uppi á teningnum tímabilið eftir en aftur komst liðið í umspil um sæti í B-deildinni en laut í lægra haldi þar. Hið gamalkunna máltæki að allt sé þegar þrennt er átti hins vegar og Guðjóni tókst að stýra liðinu upp um deild vorið 2002.

Aftur fór liðið í umspil og að þessu sinni náði liðið að leggja að velli Cardiff City í undanúrslitum og svo Brentford í úrslitalaik um að komast upp á Milleninum-leikvanginum.

Ekki nóg fyrir Guðjón að fara upp um deild

Þrátt fyrir að Guðjóni hafi tekist ætlunarverk sitt var það nóg til þess að hann héldi starfi sínu. Einungis fimm dögum eftir úrslitaleikinn í Cardiff ákvað Gunnar Gíslason, stjórnarformaður félagsins, að heillavænlegast að leiðir myndu skilja hjá Guðjóni og félaginu. Stuðningsmenn mótmæltu þessari ákvörðun en Gunnari og félögum hans í stjórninni var ekki haggið og uppsögnin stóð.

Þrátt fyrir að liðinu tækist að halda sæti sínu í B-deildinni næstu árin þar á eftir náði hvorki að mynda stöðugleika við knattspyrnustjórn liðsins né að taka skrefið lengra og berjast að fullri alvöru um að komast í efstu deild.

Á næstu þremur tímabilum voru þrír knattspyrnustjórar við stjórnvölinn, það er þeir Steve Cotterill sem entist í fjóra mánuði, Íslandsvinurinn Tony Pulis, sem lét af störfum eftir ágreining við stjórnina vorið 2005.

Við starfinu tók þá Hollendingurinn Johan Boskamp sem stýrði liðinu allt þar til fjárfestingafélagið Stoke Holding sem var í eigu íslensku fjárfestanna seldi meirihluta sinn í félaginu til Peter Coates.

Brynjar Björn Gunnarsson í baráttunni í leik Stoke City á móti Chelsea.
Fréttablaðið/Getty

Íslensku leikmennirnir voru í mis stórum hlutverkum

Alls voru 12 íslenskir á mála hjá Stoke City á meðan Íslendingarniar réðu ríkjum þar. Einar Þór Daníelsson og Sigursteinn Davíð Gíslason léku þar átta leiki sem lánsmenn tímabili 1999 til 2000. Einar Þór skoraði huggulegt mark í fyrsta leik sínum fyrir liðið en þeir félagar náðu ekki að festa sig í sess hjá liðinu.

Brynjar Björn Gunnarsson spilaði í heildina 134 leiki fyrir liðið frá 1999 til 2004 en hann skoraði í þeim leikjum 15 mörk en hann var lykilleikmaður í liðinu á meðan hann spilaði þar. Bjarni Eggerts spilaði þar frá 2000 til 2003 og skoraði 11 mörk í 132 leikjum áður en hann söðlaði um til þýska liðsins Bochum.

Ríkharður Daðason var keyptur til liðsins frá Viking Stavanger sumarið 2000. Ríkharður fékk óskabyrjun hjá Stoke City en hann skoraði sigurmark í leik á móti Barnsley með sinni fyrstu snertinu í Stoke-treyjunni. Hann skoraði í allt átta mörk á sinni fyrstu leiktíð með liðinu. Fjögur mörk í þrettán leikjum tímabilið eftir var ekki nóg til þess að fá nýjan samning.

Pulis var ekki besti vinur íslensku leikmannanna

Birkir Kristinsson varði mark Stoke City í 18 leikjum leiktíðina 2000 til 2001 og Hjörvar Hafliðason var á mála hjá liðinu á sama tíma án þess að spila fyrir aðallið félagsins.

Arnar Bergmann kom tvisvar sinnum til félagsins sem lánsmaður og lék 13 leiki og skoraði tvö mörk í fyrra skiptið og setti þrjú mörk í níu leikjum í seinna skiptið. Sveitungi Arnas, Stefán Þór Þórðarson spilaði með liðinu í tvö tímabil en hann var í stærra hlutverki á fyrra tímabilinu. Þegar upp var staðið hafði hann skoraði átta mörk í 51 leik með liðinu.

Pétur Hafliði Marteinsson lék í vörn liðsins frá 2001 til 2003 en hann náði ekki að festa sig í sessi í liði, hvorki á meðan Guðjón hélt um stjórnartaumana né hjá eftirmönnum hans. Pétur Hafliði spilaði 18 leiki á tveimur tímabilum og skoraði tvö mörk.

Þórður Guðjónsson og Tryggvi Guðmundsson voru leikmenn Stoke City um stutt skeið vorið 2005 en þeir náðu ekki að heilla Tony Pulis. Þórður ákvað að halda upp á heimastöðvar sínar uppi á Skaga eftir að hafa spilað tvo leiki en Tryggvi komst ekki í náðina hjá Pulis og hélt á heimahagana í Vestmannaeyjum.

Arnar Bergmann Gunnlaugsson í leik með Stoke City .
Fréttablaðið/Getty