Ragnar Sigurðsson, fyrrum landsliðskempa og núverandi umboðsmaður fékk sér sæti í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs, sat með Ragnari í settinu.

Ragnar er einn þeirra 23 útvöldu íslensku fótboltamanna sem spilað hefur á HM en hann var í íslenska hópnum sem fór til Rússlands fyrir fjórum árum síðan. Hann viðurkennir að hafa ekki alveg átta sig á því hvað hann var að upplifa á meðan á því stóð.

„Maður kannski fattaði það ekki þegar að það var að gerast. Það eru alltaf sömu hlutirnir í gangi sama hvar maður er; það er alltaf flug, hótel, rútuferðir og æfingar og allt það. Maður finnur samt fyrir því á HM og EM að það er aðeins meiri stemning og aðeins meira undir,“ segir Ragnar.

Stórmót í fótbolta eru bara endurtekning dag eftir dag þannig líf fótboltamannanna er fábrotið þó því fylgi síðan mikil ábyrgð að spila leikina sjálfa.

„Maður er svo einbeittur á hvað maður er að fara að gera, hvort sem það eru æfingar eða leikur. Sem varnarmaður er maður líka svo einbeittur á að gera ekki ein mistök. Það er stress sem að fylgir því. Ég hef átt margar samræður við Kára Árnason um þetta. Maður er bara með hjartað í lúkunum,“ segir Ragnar.

Yfir tæplega áratugarskeið spilaði íslenska landsliðið hvern stórleikinn á fætur öðrum hvort sem það var í riðlakeppni, á stórmóti eða í umspili um að komast á stórmót. Einbeitingin hjá leikmönnum var svo mikil að erfitt var að njóta hverrar mínútu fyrir sig,

„Á þessum tíma vorum við alltaf að spila stóra leiki þar sem að öll stigin skiptu máli. Það mátti bara ekki gera nein mistök. Hvort sem það var leikur á Laugardalsvelli eða á HM í Rússlandi þá var maður bara einbeittur á hvern leik fyrir sig. Maður var ekkert að hugsa hvort Messi væri í hinu liðinu eða eitthvað þannig,“ segir Ragnar.

„Það kemur svo aðeins síðar þegar að maður er að horfa á Meistaradeildina, EM eða HM, þar sem maður er ekki að spila að maður hefði mátt njóta þess aðeins meira að vera þarna,“ segir Ragnar Sigurðsson.