Elvar Már Friðriksson var á dögunum valinn verðmætasti leikmaður litháísku efstu deildarinnar í körfubolta karla. Það sem gerir þessa nafnbót ansi eftirtektarverða er annars vegar að Elvar Már leikur fyrir Šiauliai sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar með góðum lokaspretti.

Elvar Már og liðsfélagar hans fara inn í úrslitakeppnina með sjöunda besta árangurinn. Hins vegar er það svo sú staðreynd að Elvar Már er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögu efstu deildar í Litháen, sem er mikil körfuboltaþjóð, sem ekki kemur frá heimalandinu.

Elvar Már skilaði rúmlega 15 stigum að meðaltali og átta stoðsendingum í leikjum Šiauliai í deildarkeppninni vetur.

„Þetta er búið að vera sveiflukennt og á margan hátt mjög skrýtið tímabil. Í fyrsta lagi hefur árangur liðsins inni á vellinum verið eins og svart og hvítt fyrir og eftir áramót.

Eftir að hafa verið að móta liðið framan af leiktíðinni fengum við síðasta púslið, reynslumikinn leikmann sem er fyrirliði lettneska landsliðsins.

Þá fundum við taktinn og komumst á góðan skrið. Eftir að hafa farið sjálfur vel af stað kom smá lægð hjá mér í febrúar, en þá hafði ég verið einn í nýrri borg í nýju landi í fjóra mánuði.

Inn í það kom sóttkví og mikil einvera þannig að ég var orðinn frekar þungur,“ segir Elvar Már um sitt fyrsta tímabil í Litháen.

Léttir að fá fjölskylduna

„Það sem hélt mér gangandi var bæði það að ég vissi að fjölskyldan væri á leiðinni út og svo stundirnar með liðsfélögunum í landsliðinu, Martin Hermannssyni, Hauki Helga Pálssyni og Jóni Axel Guðmundssyni í Call of Duty. Þar náði ég að gleyma mér og fullnægja þörfinni fyrir félagsleg tengsl.

Eftir að kærastan mín og barnið okkar komu svo út í byrjun mars léttist lundin hjá mér og ég byrjaði að spila betur. Þetta er allt annað líf eftir að hafa fengið þau út og það sést berlega á mér inni á vellinum hvað mér líður mikið betur andlega.

Við náðum sem betur fer að koma okkur inn í úrslitakeppnina og mætum þar hinu sögufræga liði Rytas. Við förum inn í það einvígi sem litla liðið en við eigum alveg fína möguleika á að stríða þeim, sérstaklega þar sem einvígið er upp í tvö,“ segir landsliðsmaðurinn um síðustu mánuði og framhaldið í Litháen.

„Það kom hins vegar enn eitt stoppið í tímabilið hjá okkur, þar sem tveir leikmenn greindust með kórónaveiruna í vikunni og ég er á leiðinni í seinni skimun á eftir [síðdegis í gær]. Við erum nokkrir í liðinu sem eru búnir að vera slappir og með hita síðustu daga þannig að það er bara að vona það besta í seinni skimuninni.

Það er allavega búið að leyfa okkur að fresta leiknum, en það var í umræðunni að við þyrftum að gefa leikinn ef við gætum ekki stillt upp liði vegna veikindanna og sóttkvíar.

Þetta er fimmta eða sjötta sóttkvíin hjá mér í vetur og ég viðurkenni það alveg að þetta er orðið frekar þreytt. Vonandi er ég Covid-laus og við getum byrjað einvígið sem fyrst,“ segir Elvar, en planið er að fyrsti leikur liðanna fari fram á fimmtudaginn kemur.