Eftir hamagang á hliðarlínunni milli Guðjóns Péturs Lýðssonar, leikmanns ÍBV í knattspyrnu, og Hermanns Hreiðarssonar, þjálfara liðsins, skilja þeir sáttir. Eftir góðan fund í Vestmannaeyjum í gær og agabann Guðjóns var ákveðið að keyra á verkefnið í sátt, ÍBV til heilla.

Í leik ÍBV og ÍA í Bestu deild karla á dögunum sló í brýnu milli Guðjóns og Hermanns eftir að sá síðarnefndi ákvað að skipta Guðjóni af velli. Hörð orðaskipti áttu sér stað milli þeirra sem leiddu til þess að þeir voru komnir haus í haus á hliðarlínunni. Myndband af atvikinu náðist og það fór eins og eldur um sinu á vefsíðum fjölmiðla sem og samfélagsmiðlum.

„Ég og Hemmi erum búnir að takast í hendur og ná sáttum í þessu máli,“ segir Guðjón Pétur í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Nú höldum við bara fram veginn og erum búnir að sammælast um að láta ÍBV ganga fyrir og keyra á þetta. Þetta er bara það besta í stöðunni fyrir alla hlutaðeigandi. Við áttum góðan fund saman í fyrradag, ótrúlega gott spjall.“

Guðjón segir ekkert annað liggja að baki ósættinu þeirra á milli en pirringur sinn yfir því að vera tekinn af velli í leiknum.

„Þarna mættust bara tveir sterkir karakterar. Ég var ósáttur við að vera tekinn af velli og fór yfir strikið í pirringi mínum og Hemmi var skiljanlega ekki sáttur við það. Maður á náttúrlega aldrei að sýna slíkan pirring þegar maður er tekinn af velli en stundum lætur maður kappið bera fegurðina ofurliði, eins og Valsarar, vinir mínir segja.“

Svarar fyrir sig innan vallar

Gengi ÍBV hefur ekki verið upp á marga fiska í upphafi tímabils. Liðið er nýliði í deild þeirra bestu en situr í 11. sæti með aðeins þrjú stig eftir fyrstu átta umferðirnar og er án sigurs. „Það er stutt á milli í boltanum. Við höfum ekki lent í því hingað til að vera yfirspilaðir þannig að nú þurfum við bara að þjappa okkur saman og nýta þennan tímapunkt til þess að koma sumrinu hjá okkur almennilega af stað. Vonandi verður þetta til þess að neistar kvikni hjá liðinu og að við förum að ná í stig.“

Aðspurður hvort hann telji að þessar málalyktir hans og Hermanns muni þétta hópinn hjá ÍBV og að hlutirnir fari að taka stefnu til hins betra hjá liðinu segist Guðjón klárlega telja það. „Það er undir okkur sjálfum komið að snúa gengi liðsins við. Svona uppákomur eins og hjá mér og Hemma geta splundrað hlutunum eða búið til tímapunkt til þess að snúa hlutunum við. Ég er að minnsta kosti staðráðinn í því að svara inni á vellinum. Nú hafa málin bara verið rædd og það var tekist í hendur. Nú eigum við bara að keyra á þetta almennilega og undir mér komið að sýna það inni á vellinum að ég er í þessu af lífi og sál.“

Málið hafi verið blásið upp

Mikil umræða spratt upp í fjölmiðlum í tengslum við hamaganginn milli Guðjóns Péturs og Hermanns, sumir ýjuðu jafnvel að því að Guðjón gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir ÍBV. Aðspurður hvort honum finnist málið hafa verið blásið upp í fjölmiðlum svarar Guðjón því játandi.

„Bara 100%. Ég er ekki fyrsti leikmaðurinn sem pirrast yfir því að vera tekinn af velli. Mér finnst þetta hafa verið blásið upp, stormur í vatnsglasi, en svo sem ekkert meira um það að segja. Nú er þetta bara búið og við keyrum á þetta,“ sagði Guðjón við Fréttablaðið.