Þar sem frásögn mín sem starfsmanns KSÍ til að verða 25 ára og tengdamóður þolandans, flokkast ekki sem ábending í eyrum og augum formanns KSÍ samkvæmt viðtali í Kastljósi sem og fleiri fjölmiðlum, sendi ég hér með formlega ábendingu um meint kynferðisofbeldi tveggja landsliðsmanna eftir landsleik Danmerkur og Íslands á Parken 7.september 2010. Meðfylgjandi er frásögn tengdadóttur minnar sem ég er marg búin að ræða um við Guðna og einnig fylgja með skilaboð sem tengdadóttir mín fékk nýverið frá fyrrum vinkonu þessara leikmanna," segir í tölvupósti starfsmanns KSÍ og tengdamóður meints þolanda.

Þessir strákar höfðu allt valdið í höndum sér

Landsliðsmennirnir tveir sem hafa verið sakaðir um meint kynferðisofbeldi eftir landsleik Danmerkur og Íslands á Parken árið 2010 eru þeir Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson, báðir hafa neitað sök í málinu sem er nú í rannsókn hjá lögreglu.

Í skjali sem fylgdi tölvupóstinum var að finna frásögn meints þolanda sem er getið sem Z í skýrslu úttektarnefndarinnar. Þar er greindi Z frá því að tveir leikmenn A-landsliðsins hefðu nauðgað henni erlendis fyrir ellefu árum. Þá fylgdi tölvupóstinum annað viðhengi sem var skjáskot af Instagram-skilaboðum til Z frá ótilgreindum aðila sem sagðist hafa verið vinur viðkomandi landsliðsmanna

Sæl [Z],

Ég er búinn að skrifa þessi skilaboð cirka 100 sinnum og stroka út því ég veit í rauninni ekkert hvað ég get sagt. Ég trúi samt á það að viðurkenna mistök sín og taka ábyrgð og ætla þess vegna að henda þessu til þín.

Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk símtal frá vini mínum út af þessu atviki sem þú lentir í 2010. Þetta voru vinir mínir sem gerðu þér þetta. Það hafði spurst út að þú ætlaðir að kæra þá og vinahópurinn átti að fara á fullt að reyna að koma í veg fyrir það til þess að skemma ekki þeirra mannorð. Alger bilun ég veit.

Þessir strákar höfðu allt valdið í höndum sér. Frægð og frama, peninga, vinsældir og voru ekkert eðlilega sannfærandi þegar þeir sögðu að þú hefðir viljað þetta allan tímann og að þetta væri kjaftæði.

Þeir gátu ekki einu sinni staðið saman heldur bentu á hvorn annan og sögðu að hinn hefði gert þetta. Ég var algerlega heilaþvegin og tók með þeim stöðu. Þú dróst þetta svo til baka og þeir héldu bara áfram með lífið eins og ekkert hefði gerst, dauðfegnir að þurfa ekki að taka neina ábyrgð.

Ég hef svo oft hugsað um þetta atvik, og nú mörgum árum seinna þegar ég er búin að slíta öllum mínum samskiptum við þá fyrir löngu út af svo mörgum furðulegum atvikum þar sem ég var neydd til að ljúga fyrir þá og taka með þeim stöðu þá sé ég [...]

Mér finnst ógeðslegt að hugsa til þess hvernig ég tók afstöðu með þeim gegn þér. Mig langaði bara að biðja þig afsökunar þó að þú hafir fullan rétt á að kasta því út á hafsauga. Ég er stolt af þér að koma með þetta fram, ég trúi þér og ég stend með þér ef þú ætlar með þetta mál lengra.

Átti að sópa málinu undir teppið

Þorsteinn Gunnarsson, stjórnarmaður í KSÍ, lýsti tölvupóstinum sem kom frá starfsmanni KSÍ þennan morgun í viðtali við nefndina sem algjörri sprengju. Hann liti svo á að Y hafi tilkynnt þetta og ekkert annað. Stjórnin hefði aldrei verið látin vita af þessu heldur hafi bara átt að sópa málinu undir teppið.

Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, svaraði tölvupósti starfsmannsins á svohljóðandi hátt en pósturinn var jafnframt sendur á alla stjórn KSÍ og starfsmenn KSÍ:

Takk fyrir þetta [Y]. Hérna held ég að um misskilning sé að ræða. Ég vísaði til þessa þegar spurt var um hvort að við værum að hylma yfir kynferðisbrotamönnum og í því samhengi svaraði ég að við hefðum ekki fengið formlegar tilkynningar eða ábendingar um slíkt frá þeim sem hefðu forræði á máli eða væru vitni að slíku. Var ég þá að tala um árabil í mínum huga. Við fréttum síðan af máli tengdadóttur þinnar, eða alla vega ég, í gegnum samfélagsmiðla í sumar. Síðan þá höfum við verið að takast á við stöðuna í þessu 11 ára gömlu máli og verið í sambandi við [Y] um það og reynt að veita henni stuðning.

Þetta er gríðarlega erfitt mál að takast á við fyrir okkur en við erum að reyna og á meðan liggjum við einnig nýverið undir árásum um þöggun, hylmingu og lygar. Við höfum aldrei neitað fyrir þetta mál sem slíkt og munum ekki gera. Vandamálið er m.a. að það er engin nafngreining og er ekki enn þótt að við vitum hverjir eiga í hlut. Við erum líka bundin ákveðnum trúnaði. Það er ekki óeðlilegt að svona mál taki einhvern tíma að „leysa úr“ ef það er þá hægt. Það var aldrei ætlun mín [Y] að neita fyrir tilvist þessa máls. Þessi svör sneru að því hvernig það komst til okkar vitundar og að við værum ekki að hylma yfir einum né neinum í svona málum. Mér þykir það leitt að þér hafi sárnað yfir þessu svari.

Borghildur Sigurðardóttir, ein af varaformönnum KSÍ, svaraði tölvupósti formannsins með tölvupósti á allt stjórnarfólk klukkustund síðar sama dag með svohljóðandi hætti:

Í mínum huga erum við nú komin með formlega ábendingu um þetta mál og við þurfum að setja það í rétt ferli. Að mínu viti erum við nú komin á þann stað að þurfa að taka ákvörðun um framhaldið.

Í mínum huga getum við aldrei réttlætt val á landsliðsmanni sem liggur undir jafn alvarlegum ásökunum þó að þær hafi ekki farið í kæru. Við þurfum að horfa á að okkar hlutverk er að vernda knattspyrnuna á Íslandi og standa vörð um hana. Eins og staðan er núna liggur ímynd hennar undir skemmdum og við verðum að sporna við því.

KSÍ yrði að bregðast við

Gísli Gíslason, annar varaformanna KSÍ, tók undir orð Borghildar í tölvupósti og sagði að nú yrði að „virkja þá ferla sem við höfum“. Stjórnarmennirnir Ásgeir Ásgeirsson, Valgeir Sigurðsson og Ingi Sigurðsson tóku í kjölfarið strax undir orð varaformanna í tölvupóstum.

Í tölvupósti Inga, sem sendur var á stjórn sagði að formleg ábending væri komin fram og það yrði að koma þessu máli „í faglegan farveg sem miðar að því að standa með þolendum og verja ímynd knattspyrnuhreyfingarinnar“.

Guðni Bergsson svaraði þeim pósti með tölvupósti á alla stjórnina

Við höfum verið að fara yfir málin með [Y] og þá líka hvað væri best að gera í stöðunni fyrir nokkrum vikum með hliðsjón af því m.a. að hún vill ekki nafngreina mennina. Það höfðu ekki komið ábendingar frá [Y] með það nema um möguleika að þau ræddu saman þolandi og meintur gerandi. Það hefur verið hlutast til um það.

En á þessu stigi er ég sammála því að setja þetta nú í formlegt ferli þótt að í sjálfu sér væri best að [Y] hafi skýrt umboð en við gerum ráð fyrir því að það liggi fyrir og ræðum við [Y] um næstu skref og þá að setja sig í samband við þolanda og bjóða henni aðstoð.

Í tölvupóstum Ragnhildar Skúladóttur og Orra Hlöðverssonar sem sendir voru í kjölfarið var tekið undir með Borghildi og nefnt að KSÍ gæti ekki annað en „brugðist við þannig að gjörðirnar hafi afleiðingar“. Orri tók jafnframt undir með Borghildi í tölvupósti og nefndi jafnframt að það sem fram hefði komið gæfi stjórn KSÍ færi á að „taka málið meira inn“ á sitt borð og „auka virkni“ stjórnarmanna við meðferð þess. Formaður KSÍ svaraði að bragði að það „væri búið að senda á viðkomandi að þetta sé komið í farveg“.

Í viðtali úttektarnefndarinnar við Y kvaðst hún aftur á móti ekki hafa fengið nein frekari viðbrögð frá Guðna eftir þann tölvupóst sem hann sendi henni sama dag. Hún kannaðist því ekki við að málinu hefði verið komið í einhvern sérstakan farveg gagnvart henni eftir atburði dagsins.