Aron Pálmarsson velti vöngum yfir hvort skynsamlegt sé að halda heimsmeistaramót í Egyptalandi í janúar næstkomandi miðað við ástandið heiminum þessa stundina. Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, viðraði svipaða skoðun í samtali við fjölmiðla fyrir leik Íslands gegn Litháen í undankeppni EM á dögunum

Guðmdundur B. Ólafsson, formaður handboltasambands Íslands segist sýna skoðun Arons og Guðmundar Þórðar fullan skilning. Formaðurinn segir hins vegar ekki vera í kortunum að alþjóða handboltasambandið, IHF, aflýsi mótinu.

„Ég skil vel afstöðu Arons og vangaveltur um hvernig málum verður háttað á mótinu. Við höfum fundað reglulega upp á síðkastið með forráðamönnum IHF og þeir hafa fullvissað okkur um að sóttvarnaraðgerðir verði í hávegum hafðar. Þetta verður spilað í búbblu og öryggis leikmanna gætt í hvívetna," segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

„Það er ekkert sem bendir til þess að IHF muni taka þá ákvörðun að aflýsa mótinu en auðvitað verður fylgst með þróun mála í faraldrinum. Ég varð ekki var við að það hafi verið vandkvæði hvað smit varðar í krinum síðustu umferð í undankeppni EM. Því sé ég persónulega ekkert því til fyrirstöðu að halda mótið," segir hann enn fremur.

„Heimsmeistaramótið er stærsta tekjulind IHF og sambandið hefur nú þegar selt sjónvarpsréttinn og auglýsingar fyrir mótið. Það væri mikil tekjuskerðing að aflýsa mótinu og það verður ekki gert nema aðstæður breytist til verri vegar," segir formaðurinn.

„Það sem skýtur kannski skakkast við í þessum málefnum er að ekki sé verið að spila handbolta hér heima á meðan það er verið að leika í löndunm í kringum okkur. Vonandi fer landið að rísa og aðgerðum verður aflétt hérlendis fljótlega og við getum fari að hefja deildina á nýjan leik," segir Guðmundur um framhaldið.