Í aðdraganda NCAA-meistaramótsins í frjálsum íþróttum eru tveir Íslendingar eftir á lista í spjótkasti. Er þetta í fyrsta sinn sem tveir Íslendingar leiða NCAA í sömu grein og geta Íslendingar því bundið vonir við að eiga einstakling á verðlaunapalli í Oregon í næsta mánuði þegar meistaramótið utanhúss í bandarískum háskólaíþróttum fer fram.

Dagbjartur Daði Jónsson sem keppir fyrir hönd ÍR á Íslandi og er á sínu fyrsta ári í Mississippi State háskólanum er efstur með 78,66 metra kast, en Sindri Hrafn Guðmundsson sem keppir fyrir hönd Breiðabliks er þar rétt á eftir með 77,77 metra.

Fyrst þurfa þeir að taka þátt í úrtökumóti sem fer fram í næstu viku, en í aðdraganda mótsins skiptu þeir Dagbjartur og Sindri milli sín efstu tveimur sætunum í svæðismóti í SEC-deildinni fyrir helgi, þar sem Dagbjartur átti lengsta kast ársins í NCAA.

„Árangurinn á þessu móti var virkilega mikil hvatning og gefur manni sjálfstraust fyrir meistaramótið í Eugene. Það skemmdi ekki fyrir að hrifsa efsta sætið af Sindra þarna undir lokin,“ segir Dagbjartur glottandi, aðspurður hvernig það hafi verið að berjast við samlanda um sigur á móti á erlendri grundu og hafa betur.

Dagbjartur er á fyrsta ári við Mississippi State háskólann þar sem hann er við nám í leiklist. Skólinn hefur getið sér gott orð fyrir afreksfólk í spjótkasti undanfarin ár en ríkjandi heimsmeistari í greininni, Anderson Peters, frá Grenada, æfði og keppti fyrir skólann fyrir nokkrum árum. Fyrir vikið var heillandi að keppa og æfa við bestu aðstæður.

„Það er mikill metnaður fyrir íþróttum hérna í Mississippi State, sérstaklega í spjótkasti. Skólinn er oft kallaður JavU (Javelin University). Á síðasta meistaramóti tóku þeir fyrstu þrjú sætin á mótinu. Það gæti alveg endurtekið sig í ár. Við Sindri erum sigurstranglegir í aðdraganda mótsins og Tyriq sem æfir með okkur er líka líklegur til að berjast um verðlaunasæti.“

Dagbjartur hóf nám í janúar og má segja að hann hafi hitt á rétta tímasetningu, en fremsta frjálsíþróttafólk landsins missti æfingaaðstöðuna í Laugardalshöll í vor. Fyrir vikið nýtur hann góðs af æfingaaðstöðu í fremstu röð og betri veðurskilyrðum til að æfa spjótkast.

„Allar aðstæður hérna eru til fyrirmyndar, sem er frábært. Þetta tækifæri kom á hárréttum tímapunkti miðað við það sem gekk á heima á Íslandi þegar æfingaaðstöðunni var lokað. Námið er í raun rétt að byrja en byrjunin hefur verið framar vonum,“ segir Dagbjartur og heldur áfram: „Veðurskilyrðin eru líka betri til æfinga í spjótkasti, að geta kastað úti og séð spjótið fljúga gerir heilmikið fyrir mann. Ég sé strax mun á því hvað ég er að kasta betur og er kominn í betra form á stuttum tíma.“

Dagbjartur er á fyrsta ári sínu við Missisippi State sem hefur náð góðum árangri í spjótkasti undanfarin ár.
Mynd/Missisippi State Athletics

Samkeppnin við Sindra segir Dagbjartur að sé bæði hvetjandi og gefandi á sama tíma.

„Þetta hefur verið frábært að vinna saman hérna alla daga. Við keyrum hvor annan áfram á æfingum og í keppnum og reynum að draga það besta fram hvor hjá öðrum. Við erum að eiga mjög svipuð köst þessa dagana og það er um leið samkeppni okkar á milli.“

Samhliða spjótkastinu gefur Dagbjartur út tónlist og er hægt að nálgast efni eftir hann á Spotify.

„Ég hef samið tónlist í nokkur ár samhliða íþróttunum. Þetta er skemmtilegt þegar hugurinn þarf að leita að öðru en spjótinu. Finnst það mjög mikilvægt að hafa eitthvað annað fyrir stafni sem hægt er að gleyma sér í.“

Aðspurður segist hann aðallega semja á íslensku en fyrsta lagið á ensku kom út á dögunum og hefur fengið góðar móttökur.

„Lögin hafa aðallega verið á íslensku hingað til, en ég gaf út mitt fyrsta enska lag á dögunum sem er komið á spilunarlistann hérna. Fengið góðar móttökur í liðinu,“ segir hann léttur að lokum.