Líkt og liðsfélagi hans hjá Real Sociedad, Martin Ödergaard, er Alexander Isak að sýna þessa dagana af hverju hann var um tíma einn eftirsóttasti unglingurinn í Evrópu. Isak skoraði sigurmarkið á lokamínútum leiksins gegn Athletic Bilbao um helgina eftir að hafa lagt upp fyrra markið. Það kórónaði góða viku hjá Isak sem skoraði tvö og lagði upp annað gegn Real Madrid í spænska bikarnum fyrr í vikunni. Með sigrinum heldur Real Sociedad í næstu lið og draumur smáliðsins frá San Sebastián um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári lifir góðu lífi.

Svíinn byrjaði óvænt á bekknum gegn nágrönnunum í Baskaslagnum en var skipt inn á völlinn á 55. mínútu og var fljótur að láta til sín taka. Tíu mínútum síðar fann hann liðsfélaga sinn, Portu, inn á vítateig Bilbao þegar heimamenn komust yfir. Rétt fyrir leikslok var Isak sjálfur á ferðinni og skoraði sigurmarkið eftir að gestirnir höfðu jafnað þegar hann fylgdi eftir eigin skoti.

Vakti ungur athygli

Isak sem er af erítreskum uppruna er fæddur og uppalinn í Stokkhólmi þar sem hann gekk til liðs við AIK sex ára gamall. Þegar Isak var fimmtán ára var hann farinn að banka á dyrnar hjá aðalliðinu þar sem Haukur Heiðar Hauksson varð liðsfélagi hans. Isak fékk eldskírn sína gegn Tenhult í bikarnum sextán ára og tók það hann aðeins ellefu mínútur að brjóta ísinn fyrir AIK.

Isak var tekinn inn í aðalliðshóp sænska félagsins sextán ára og lék á fyrsta ári sínu 29 leiki í öllum keppnum, þar af þrjá í Evrópudeildinni. Í þessum 29 leikjum skoraði ungi framherjinn þrettán mörk, þar af tíu í 24 leikjum í sænsku deildinni. Var hann verðlaunaður sem nýliði ársins í sænsku deildinni.

Þetta vakti athygli stærstu liða Evrópu og gekk Real Madrid hart á eftir hinum sautján ára Isak ári eftir að Ödergaard skrifaði undir á Spáni en Isak ákvað að semja við Dortmund. Þýska félagið greiddi metfé fyrir leikmann úr sænsku deildinni, níu milljónir evra. Tók Isak þar fram úr Zlatan Ibrahimovic þegar hann var keyptur til Ajax frá Malmö árið 2001. Frá því að Isak skaust fram á sjónarsviðið með AIK hefur hann oft verið kallaður „næsti Zlatan“ og arftaki sænsku goðsagnarinnar hjá sænska landsliðinu. Það eru því miklar væntingar gerðar til hans í heimalandinu.

Hjá Dortmund fékk Isak aldrei tækifæri til að láta ljós sitt skína enda hætti Thomas Tuchel, sem fékk Isak til liðsins, með liðið hálfu ári seinna. Heilt yfir kom Isak við sögu í þrettán leikjum á tveimur árum, oftast sem varamaður. Fyrir vikið óskaði hann eftir því að yfirgefa félagið á láni og stökk á tækifærið þegar Willem II bauð honum að koma á láni. Lífið gekk betur í Hollandi þar sem Svíinn skoraði þrettán mörk í sextán leikjum.

Ljóst var að tækifærin yrðu af skornum skammti hjá Dortmund og tók Isak tilboði Real Sociedad sem keypti hann frá Þýskalandi á 8,5 milljónir evra. Isak átti erfitt uppdráttar fyrstu mánuðina og skoraði aðeins tvö mörk í fyrstu tólf leikjunum en með jöfnunarmarki gegn Börsungum brast stíflan. Í næsta leik skoraði Isak tvö og boltinn fór að rúlla. Í ellefu leikjum eftir að hafa skorað gegn Barcelona hefur Isak skorað ellefu mörk.

Spennandi verður að fylgjast með framgöngu Isak með bæði Real Sociedad og sænska landsliðinu næstu árin. Þrátt fyrir ungan aldur er hann kominn með 88 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 42 mörk ásamt því að skora fjögur mörk í tólf landsleikjum.

Ef hann heldur áfram að raða inn mörkum með liði Real Sociedad er ekki ólíkleg að stærstu lið Evrópu fari að sýna Svíanum áhuga á ný en nú ætti hann að vera tilbúnari í hlutverk framherja stórliðs.