Arnar Daði Arnarson, þjálfari Gróttu í Olís deild karla, á von á spennandi úrslitakeppni í handboltanum, en ballið byrjar í kvöld með tveimur leikjum. Um er að ræða átta liða úrslit þar sem vinna þarf tvo leiki til þess að komast áfram í undanúrslitin.

ÍBV tekur á móti Stjörnunni í Vestmannaeyjum í kvöld og býst Arnar Daði við opnu og skemmtilegu einvígi.

„Þetta eru tvö af lélegri varnarliðum deildarinnar og gæti verið opið og skemmtilegt einvígi. Heimavöllurinn hjá ÍBV gæti skilað þeim sigri í gegnum oddaleik. Eyjamenn hafa verið í smá brasi með Stjörnuna en Garðbæingar hafa verið í basli eftir áramót. Það virðist eitthvað vera að þar á bæ,“ segir Arnar Daði um einvígið.

Valur varð deildarmeistari og mætir Fram sem endaði í átta liða úrslitum. Arnar sér ekkert óvænt í kortunum. „Það er ekkert minna en hneyksli ef Valur fer ekki áfram í þessum slag. Þeir fara að öllum líkindum áfram með tveimur öruggum sigrum.“

Á föstudag tekur svo FH á móti Selfoss og þar getur allt gerst að mati Arnars. „Þetta er kannski það einvígi sem er hvað mest tvísýnt.

Ég er á því að Selfoss sé með sterkara lið og meiri breidd en það er mikil stemming í Kaplakrika fyrir þessa úrslitakeppni. Það eru smá meiðsli að hrjá FH og mér finnst Selfoss líklegri,“ segir Arnar.

Á föstudag mætast einnig liðin sem urðu í öðru og sjöunda sæti, Haukar og KA.

„Ef það er eitthvað lið sem hræðist það að fara í KA-heimilið þá eru það Haukar. KA vann þá í bikarnum og hafa náð í ótrúleg úrslit gegn Haukum síðustu ár. Haukar eru miklu betra lið, með meiri breidd og það er skandall ef þeir fara ekki áfram. Það er pressa á Aroni Kristjánssyni að ná í þann stóra fyrir Hauka,“ segir Arnar Daði.