Eistneski fjölmiðillinn Õhtuleht segir úrslit Levadia Tallin, meistaranna í landinu, gegn Víkingi Reykjavík í gær skammarleg. Íslands- og bikarmeistararnir fóru með 6-1 sigur af hólmi.

Levadia komst yfir í gær með marki Zakaria Beglarishvili af vítapunktinum á 5. mínútu. Eftir það léku Víkingar hins vegar á alls oddi. Kyle McLagan jafnaði leikinn á 10. mínútu og sautján mínútum síðar var Kristall Máni Ingason búinn að koma Víkingum yfir. Halldór Smári Sigurðsson skoraði svo þriðja markið seint í fyrri hálfleik.

Í þeim síðari átti Nikolaj Hansen, Helgi Guðjónsson og Júlíus Magnússon svo eftir að bæta við mörkum.

„Skammarlegt,“ segir í byrjun fyrirsagnar Õhtuleht. „Það var fallegt að sjá stöðuna á skiltinu (eftir að Levadia komst yfir) en okkar menn áttu erfitt með að spila sín á milli og jöfnunarmark lá í loftinu,“ segir einnig í umfjöllun miðilsins. Forysta liðins lifði aðeins í fimm mínútur. „Það var rok og rigning og lókallinn var glaður,“ stóð einnig í miðlinum.

Víkingur mætir Inter Club d'Escaldes í úrslitaleik um laust sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar á föstudag.