Þýskaland fékk 0-3 skell í Hollandi í Þjóðadeildinni í kvöld. Er þetta stærsta tap þýska karlalandsliðsins í um ellefu ár síðan þeir töpuðu gegn Tékklandi í október 2007.

Jafnræði var með liðunum framan af en Hollandi tókst að brjóta ísinn í fyrri hálfleik. Virgil Van Dijk fylgdi eftir skalla Ryan Babel og skallaði í netið af stuttu færi.

Þýskaland sótti af krafti í seinni hálfleik sem skyldi eftir pláss fyrir aftan vörn Þjóðverja sem Hollendingar nýttu sér. Memphis Depay bætti við marki áður en Gini Wijnaldum innsiglaði sigur Hollendinga í uppbótartíma.

Á sama tíma skyldu Írland og Danmörk jöfn 0-0 í bragðdaufum leik í annarri deild og Gíbraltar vann óvæntan sigur á Armeníu á útivelli.

Er þetta fyrsti sigur Gíbraltar í keppnisleik í 22. tilraun.