Það er rík knattspyrnuhefð á Akranesi, en frá Skipaskaga hafa margir knattspyrnumenn í gegnum tíðina söðlað um, farið utan og gert það gott í atvinnumennsku. Þrír leikmenn karlaliðs ÍA hafa yfirgefið herbúðir Skagamanna á yfirstandandi keppnistímabili, en Bjarki Steinn Bjarkason gekk til liðs við ítalska B-deildarliðið Venezia um mitt sumar og í upphafi þessarar viku fór Tryggvi Hrafn Haraldsson til norska B-deildarliðsins Lilleström og Stefán Teitur Þórðarson var seldur til danska B-deildarliðsins Silkeborg.

Þar áður hafði ÍA selt Arnór Sigurðsson til rússneska félagsins CSKA Moskvu, Ísak Bergmann Jóhannesson og Oliver Stefánsson til sænska félagsins Norrköping og Hákon Arnar Haraldsson til danska félagsins FC Köbenhavn. Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA, segir stefnu félagsins vera að halda áfram á sömu braut. Það er, að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri með Skagaliðinu og láta svo hagsmuni leikmanns gilda til jafns við hagsmuni félagsins, þegar erlend félög bera víurnar í þá.

„Það hefur verið stefna Skagamanna undanfarin ár að gefa leikmönnum sem eru að koma upp úr öflugu unglingastarfi félagsins tækifæri með meistaraflokki og byggja liðið upp á uppöldum Skagamönnum. Haldið hefur verið mjög vel utan um barna- og unglingastarfið undanfarin ár og það er að skila sér í leikmönnum sem eru að spila lykilhlutverk í Skagaliðinu og svo í því að Skagamenn eru að koma sér í atvinnumennsku.

Við munum halda áfram á þessari braut og eitt dæmi þess er að Ingi Þór Sigurðsson, sem er fæddur árið 2004, hefur spilað fimm leiki fyrir liðið í sumar og var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í deildarleik þegar við spiluðum við FH um síðustu helgi. Þá höfum við verið að semja við unga og efnilega leikmenn liðsins,“ segir Geir í samtali við Fréttablaðið.

„Við erum með öfluga þjálfara í yngri flokkunum og þar nefni ég sem dæmi Sigurð Jónsson, sem hefur unnið frábært starf á Skaganum. Svo finnst mér að Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari meistaraflokksins, eigi hrós skilið fyrir að hlúa mjög vel að leikmönnum liðsins. Bæði með því að búa þá vel undir baráttuna í efstu deild hér heima, sem og fyrir atvinnumennsku þegar svo ber undir. Við erum að stilla upp ungu liði á Íslandsmótinu að þessu sinni og það hefur staðið sig mjög vel.

Svo eru nokkrir strákar að uppskera laun erfiðisins með því að fara erlendis, sem er bara mjög jákvætt. Við viljum aðstoða knattspyrnumenn í okkar röðum við að upplifa draum sinn um að gera knattspyrnuna að lifibrauði sínu og hjálpa þeim við að þróa feril sinn með því að komast að í atvinnumennsku. Þar af leiðandi vega hagsmunir leikmannsins og félagsins ávallt jafnt, þegar erlend félög spyrjast fyrir um leikmenn í okkar röðum,“ segir framkvæmdastjórinn enn fremur.

„Það er svo ekkert launungamál að þeir peningar sem við fáum fyrir sölu á borð við félagaskiptin á Stefáni Teiti til Silkeborg, skiptir miklu máli fyrir rekstur okkar, þó svo að íslensk félög séu enn að selja leikmenn fremur ódýrt til erlendra félagsliða. Þetta ár hefur verið mjög þungt í rekstri okkar, eins og annarra íslenskra félaga vegna kórónaveirunnar og því er kærkomið að geta selt leikmenn og fengið tekjur með þeim hætti. Staðan hvað fjárhaginn varðar er góð hjá knattspyrnudeild ÍA, en við þurftum að taka aðeins til í rekstrinum þegar ég tók við. Deildin skuldar lítið sem ekkert og við eigum öfluga bakhjarla á Akranesi sem sjá til þess að félagið stendur vel,“ segir hann um stöðu mála hjá knattspyrnufélaginu