Þúsundir Ólympíufara fengu afnot af nýju símtæki á meðan Vetrarólympíuleikunum stendur til að koma í veg fyrir að kínversk stjórnvöld geti áfram fylgst með þeim eftir að Ólympíuleikunum lýkur.

Ólympíunefndir frá sjö mismunandi löndum vöruðu fulltrúa sína við því að taka eigin raftæki með til Kína. Allir þátttakendur Ólympíuleikanna þurfa að ná í snjallforritið My2022 og hefur það reynst tölvuþrjótum auðvelt að brjóta sér leið inn í forritið.

Samkvæmt heimildum Daily Mail geta mótshaldarar fylgst með samskiptum ef tiltekin orð koma við sögu en forritið er notað til samskipta við íþróttafólk og til að fylgjast með kórónaveirusmitum.

Fulltrúar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Kanada, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi fengu ábendingar um að þeim stæði til boða að fá símtæki sem þeim væri frjálst að losa sig við eftir heimkomu.