Jodie Burrage og Lesia Tsurenko áttust við í fyrstu umferð Wimbledon, tenniskeppninnar vinsælu í dag. Leikurinn hefur komist í fréttirnar víða, þó ekki fyrir það sem átti sér stað inni á vellinum.

Leikurinn var stöðvaður um tíma þar sem boltastrákur þurfti aðhlynningu. Burrage skokkaði af vellinum, sótti íþróttadrykk og gaf honum. Hún lét hann svo einnig hafa hlaup sem áhorfandi hafði rétt henni.

Að lokum mætti sjúkrateymi á svæðið til að hlúa að drengnum. Það hafa þó margir gagnrýnt hvers vegna það tók svo langan tíma fyrir sjúrkaliða að koma á völlinn á þessu risastóra móti sem miklum fjármunum er varið í að skipuleggja og halda. Það þykir óeðlilegt að leikmaður á mótinu hafi séð sig knúna til að stíga inn í aðstæðurnar.

Þó hafa margir einnig hrósað Burrage fyrir viðbrögð sín, en hún beið með drengnum þar til sjúkraliðar mættu á svæðið.

Að lokum vann hin úkraínska Tsurenko leikinn í tveimur settum, 6-2 og 6-3.