Sjöfaldi Formúlu 1 heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton hefur greint frá fremur áhugaverðri staðreynd um sjálfan sig svona miðað við að hann er kappakstursökumaður. Hamilton finnst nefnilegast stressandi að keyra á götum úti fyrir utan kappakstursbrautina þar sem hann keyrir yfirleitt á um 300 kílómetra hraða á klukkustund.

Hamilton greindi frá þessum kvíðavaldandi hlut sínum í viðtali við Vanity Fair á dögunum. Í aðdraganda viðtalsins átti hann samtal við blaðamann Vanity Fair símleiðis og var um leið að keyra um götur Nice í Frakklandi.

,,Þetta er of stressandi fyrir mig," sagði Hamilton á einum tímapunkti samtalsins. ,,Þetta er klikkuð gata, það er svo mikið í gangi hérna. Ég ætla beygja hérna af aðeins."

Hann útskýrði síðan fyrir blaðamanninum að hann upplifi engan ótta við að keyra Formúlu 1 bíl á kappakstursbraut en annað gildi um akstur á götum úti.

,,Mér finnst það bara svo stressandi. Ég reyni að sleppa við að gera hluti sem bæta engu við líf mitt."