Sjö lið með íslenska leikmenn í sínum röðum eiga möguleika á að komast í gegnum umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla. 

Matthías Vilhjálmsson og félagar hans hjá Rosenborg mæta Shkendija, Qarabag með Hannes Þór Halldórsson innanborðs mætir Valsbönunum, Sheriff, og Malmö, liðið sem Arnór Ingvi Traustason leikur með spilar við Midtjylland. 

Jóhann Berg Guðmundsson og samherjar hans hjá Burnley etja kappi við Olympiakos og Hjörtur Hermannsson og liðsfélagar hans hjá Bröndby leika við Genk.

Þá verður Íslendingaslagur þegar Sarpsborg og Maccabi Tel Aviv leiða saman hesta sína, en Orri Sigurður Ómarsson er á mála hjá Sarpsborg og Viðar Örn Kjartansson, leiðir alla jafna framlínu Maccabi Tel Aviv. 

Leikirnir í umspilinu fara fram miðvikudaginn 22. ágúst annars vegar og svo sléttri viku, það er miðvikudaginn 29. ágúst, hins vegar.