Í dag verður tekin til umfjöllunar í bæjarráði Akureyrar skýrsla starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar næstu 15 árin.

Félögin fengu að senda inn sinn óskalista sem hefur verið forgangsraðað í 11 verkefni þar sem kostnaður hefur verið metinn á um sjö milljarða króna. Í tillögu KA kemur fram að félagið vilji hafa alla sína starfsemi við Dalsbraut, félagið fái gervigrasvöll þar ásamt stúku og Akureyrarvöllur verði skipulagður undir aðra starfsemi. Mikil viðhaldsþörf er komin á Akureyrarvöll og er hann langversti fótboltavöllur efstu deildar.

KA þarf einnig stærri félagsaðstöðu en núverandi aðstaða er of lítil og álagið er orðið of mikið á íþróttahúsið enda hefur iðkendum í handbolta fjölgað mikið á undanförnum árum.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að hann voni að skýrslan verði nýtt fyrir pólitíkina sem ræður næstu skrefum. „Þeir sem eru í meirihlutanum taka ákvörðun um hvað skal ráðast í. En fyrir okkar hönd þá fagna ég því að það sé búið að opna á samtal við bæinn um uppbyggingu á svæðinu. Við vorum með í okkar draumsýn þrennt: Gervigrasvöll, félagsaðstöðu og annað íþróttahús.
Með þessari skýrslu er hægt að setjast niður með bænum og velta því fyrir sér hvað er hægt að gera. Við fögnum því.“

Sævar bendir á að ekki sé verið að fara að taka skóflustungu að öllum þessum verkefnum í dag heldur er þetta áætlun til 15 ára og margt geti gerst í millitíðinni. „Það getur margt breyst í pólitík á 15 árum og það getur þess vegna verið kominn nýr listi eftir átta ár. En ég held að það sé mikil ánægja hér í íþróttahreyfingunni með að það sé komið eitthvert plagg sem hægt er að vinna eftir. Að það sé ekki verið að vinna í umræðuhópum. Það er komið eitthvað á borðið sem hægt er að renna yfir og taka ákvarðanir um. Örugglega eru einhver félög hér á Akureyri eitthvað ósátt og vilja fá endurskoðun og það gæti alveg gerst hjá pólitíkusunum.“

KA æfir og keppir á sjö stöðum á Akureyri en í félaginu eru samkvæmt skýrslunni 1.369 iðkendur og er það fjölmennasta félag bæjarins. Þórsarar eru með 1.114 og fimleikarnir laða að sér 761 iðkanda. „Við erum víða enda með víðtækt starf. Fótbolti er æfður á þremur stöðum og handbolti í fjórum húsum ef ég man þetta rétt. En þó þetta sé svona verður að hrósa bænum því ég held að hvergi í svona bæjarfélagi sé jafn mikið af íþróttamannvirkjum. Við erum með sex íþróttahús, Hlíðarfjall, Skautahöllina, Bogann og fleira og fleira. Það er vel í lagt hér fyrir norðan og ber að þakka fyrir það.“