Jón Axel Guðmundsson tryggði Davidson sigur á sterku liði Rhode Island í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Davidson var einu stigi undir, 60-61, þegar tæpar sjö sekúndur voru til leiksloka.

Jón Axel fékk boltann eftir leikhlé og braut sér leið að körfu Rhode Island. Grindvíkingurinn lagði boltann ofan í og fékk vítaskot að auki sem hann nýtti. Lokatölur 63-61, Davidson í vil.

Steph Curry, frægasti sonur Davidson, fylgdist vel með sínum mönnum og var hinn kátasti þegar Jón Axel skoraði sigurkörfuna. „Frábært að vera Villiköttur í dag“, skrifaði Curry á Twitter.

Jón Axel spilaði 37 mínútur í leiknum í nótt. Hann skoraði 11 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hann nýtti tvö af sex skotum sínum utan af velli og sex af sjö vítaskotum sínum.

Jón Axel, sem er á sínu öðru tímabili hjá Davidson, er með 13,4 stig, 6,1 frákast og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í vetur.