Nýkrýndir heimsmeistarar Frakka fengu höfðinglegar móttökur við komuna til Parísar í dag. Frakkland varð heimsmeistari í annað sinn eftir 4-2 sigur á Króatíu í úrslitaleik HM 2018 í gær.
Frakkar lentu í París í dag. Fjöldi fólks var samankominn á Champs-Elysées í miðborg Parísar og tók á móti heimsmeisturunum.
Franska liðið var keyrt í opinni rútu til forsetahallarinnar þar sem forsetinn Emmanuel Macron tók á móti því.
Macron var á úrslitaleiknum á Luzhniki leikvanginum í gær og fagnaði vel og innilega með frönsku leikmönnunum í leikslok.




