Deilum landsliðsmannsins Kristófers Acox við uppeldisfélag sitt KR er hvergi nærri lokið en á morgun verður mál tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á milli Kristófers og KR. Kristófer telur KR-inga skulda sér laun og yfirgaf félagið síðasta sumar en KR-ingar börðust fyrir því að hann ætti eitt ár eftir af samningi sínum þegar Kristófer rifti við KR. Kristófer samdi við Val nokkrum dögum síðar og leikur með félaginu í dag en KR-ingar neituðu að skrifa undir félagsskiptin á sínum tíma. Það þurfti því úrskurð frá KKÍ til að landsliðsmaðurinn fengi leikheimild í Valstreyjunni sem fékkst að lokum. Í þremur leikjum til þessa hefur Kristófer verið með tuttugu stig, 9,3 fráköst og 1,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þótt það sé sjaldgæft að slík mál fari fyrir dómstóla á Íslandi þarf ekki að fara langt aftur til að finna síðasta dæmið. Fyrrverandi landsliðsmaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór með mál fyrir dómstóla þar sem staðfest var að ÍR þyrfti að greiða honum vangoldnar launagreiðslur. Sigurður sleit krossband í fyrsta leik eftir að hafa skrifað undir í Breiðholtinu og stóð ÍR ekki við kjör og kaup á meðan meiðslunum stóð en ÍR-ingar sögðu að hann hefði ekki uppfyllt samningsákvæði um að vera til taks og heill heilsu á samningstímanum. ÍR-ingar nýttu sér ákvæði til að rifta samningnum eftir eitt ár og leikur Sigurður í dag með Hetti á Egilsstöðum.

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, vildi ekki tjá sig um málavextina í málinu en sagði auðvitað leiðinlegt að sjá slíka deilu þurfa að fara fyrir dómstóla.

„Að sjálfsögðu er mjög leiðinlegt að sjá að það þurfi að grípa til þessa aðgerða fyrir hönd beggja aðilanna í þessu máli,“ sagði Hannes sem sagðist í fljótu bragði ekki muna eftir fleiri málum eins og málum Kristófers og Sigurðar.

„Það er alltaf hægt að fara dómstólaleiðina sem er algengara á almennum vinnumarkaði en í íþróttahreyfingunni. Ég vona að þetta verði eitt af fáum málum sem rati þangað og að hægt verði að leysa þessi mál utan dómstóla.“

Aðspurður hvort KKÍ hefði eitthvað skoðað að endurskoða regluverkið utan um samninga leikmanna sagði Hannes það hafa komið til tals.

„Við erum alltaf að skoða alla hluti til að laga regluverkið okkar og þetta er eitt af því. Auðvitað hafa oft komið upp ágreiningsmál milli leikmanns og klúbba, hvort sem það er hér á Íslandi eða hjá erlendum liðum en þá eru slík mál yfirleitt leyst fyrir dómstól sem Alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, er með. Í leikmannasamningnum er yfirleitt ákvæði um að ágreiningsmál fari fyrir þann dómstól og yfirleitt eru báðir aðilar sammála um að fara með málin þangað,“ sagði Hannes og hélt áfram:

„Það hafa komið upp ágreiningsmál hér á Íslandi, milli erlends leikmanns og íslensks félags og þá er það þessi tiltekni dómstóll FIBA sem úrskurðar í því máli. Þau mál hafa fallið báðum megin en oftast fara svona ágreiningsmál þangað,“ sagði Hannes og sagði að það væri í skoðun að setja regluverk utan um hvað gera skyldi þegar félög verða staðin að því að brjóta á samningum leikmanna þegar sú hugmynd var borin undir hann.

„Sú umræða hefur líka komið upp, að hægt verði að grípa til aðgerða ef að félög verða staðin að því að brjóta á samningsákvæðum leikmanna. Þetta er í skoðun hjá okkur en við þurfum að hafa betri yfirsýn yfir þetta,“ sagði Hannes enn fremur.