Stærsta nafnið í herbúðum Orlando City SC er Nani sem lék í átta ár með Manchester United undir stjórn Sir Alex Ferguson en KR lék æfingarleik við liðið í nótt. Nani hefur einnig leikið með Fenerbahce, Lazio, Valencia og Sporting á ferlinum og var hluti af portúgalska landsliðshópnum þegar Portúgal varð Evrópumeistari fyrir fjórum árum.

Hann kann alveg sitthvað fyrir sér með boltann og Ægir Jarl Jónasson, leikmaður KR, fékk heldur betur að finna fyrir fótafimi Portúgalans eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Ægir var skilinn eftir í rykinu, eins og gárungarnir í stúkunni segja stundum en Nani skoraði tvö mörk í leiknum sem Orlando vann 3-1.

Þetta var fyrri æfingaleikur KR í ferð liðsins til Bandaríkjanna sem er hluti af undirbúningi liðsins fyrir Pepsi Max-deild karla.