LeBron James bætti stigametið í NBA-deildinni vestan hafs í vikunni. Það gerði hann fyrir framan fulla höll af fólki. Nær allir tóku upp símann til að reyna að festa það á filmu þegar LeBron setti niður körfuna sem tryggði honum stigametið. Allir nema einn maður.

Hinn 38 ára gamli LeBron er á mála hjá Los Angeles Lakers. Liðið tapaði naumlega gegn Oklahoma City Thunder aðfaranótt miðvikudags, 133-130. Það sem stóð þó hæst eftir leik var að LeBron hafi bætt stigametið.

LeBron þurfti 36 stig í leiknum til þess að bæta met Kareem Abdul-Jabbar yfir stigafjölda í NBA. Hljóðaði það upp á 38.387 stig og var sett 1989. LeBron tókst það. Hann gerði 38 stig í tapinu gegn Oklahoma.

Fjöldi stuðningsmanna borgaði sig inn dýrum dómum í gær til þess að fylgjast með LeBron bæta metið. Allt ærðist af fögnuði þegar það tókst.  

Flestir reyndu að festa það á filmu þegar LeBron setti niður körfuna sem tryggði honum 38.388. stigið sitt í NBA. Einn maður ákvað þó að njóta bara augnabliksins.

Það vildi svo til að það var Phil Knight, stofnandi íþróttavöruframleiðandans Nike.

Myndin, sem sjá má hér að neðan, hefur vakið mikla umræðu á samfélagsmiðlum. Margir eru á því að fólk hafi gert mistök með því að taka upp símann. Það hafi frekar átt að fara að fordæmi Knight.

Sitt sýnist hverjum.