Selfyssingar tóku í gær á móti Þórsurum frá Akureyri í leik í 16. umferð Lengjudeildar karla. Selfyssingar fóru frá leiknum með 2-1 sigur og þrjú stig í pokanum en það er atvik í fyrri hálfleik sem hefur gripið athygli allra eftir leik.

Á 34. mínútu slapp Hrovje Tokic inn fyrir vörn Þórsara. Orri Sigurjónsson, leikmaður Þórsara sem hafði komið inn sem varamaður á 18. mínútu ákvað að brjóta á honum og Erlendur Eiríksson, dómari leiksins dæmdi réttilega aukaspyrnu.

Eftir mikla reikistefnu ákvað Erlendur að draga upp rauða spjaldið en það vildi ekki betur til en svo að hann rak rangan leikmann af velli því Hermann Helgi Rúnarsson fékk að líta rauða spjaldið. Orri Sigurjónsson, sá brotlegi slapp því heldur betur með skrekkinn.

Hermann Helgi var skiljanlega undrandi á þessari ákvörðun Erlends en hana gat hann ekki tekið til baka. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Lengjudeidlin er í beinni á Hringbraut en á morgun verður leikur Gróttu og Aftureldingar í beinni klukkan 19:15.