Útherjinn D.K. Metcalf gerði sig sekan um slæm mistök í leik Seattle Seahawks og Dallas Cowboys þegar hann byrjaði fagnaðarlætin fyrir snertimarki of snemma og varnarmaður náði að koma í veg fyrir snertimarkið.

Atvikið átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks þegar Russell Wilson fann Metcalf með fallegri fjörutíu jarda sendingu og var ekkert nema endasvæðið fyrir framan Metcalf.

Metcalf sem er mikill skrokkur og öskufljótur hægði á sér á lokameturunum til að hefja fagnaðarlætin fyrir snertimarki og náði Trevon De'Sean Diggs, varnarmaður Cowboys, að kýla boltann úr höndum Metcalf við endalínuna.

Hann náði að bæta upp fyrir það síðar í leiknum þegar Metcalf greip snertimarkssendingu frá Wilson fyrir 38-31 sigri Seahawks.

Í atvikinu sem sést í myndbandinu hér fyrir ofan tókst Diggs að koma í veg fyrir snertimark og vinna boltann aftur (e. touchback) fyrir Dallas Cowboys.

Hinn ungi Metcalf er ekki sá fyrsti sem gerir slík mistök gegn Dallas Cowboys. Frægt er þegar DeSean Jackson, útherji Philadelphia Eagles, sleppti boltanum of snemma á eins jarda línunni og skoraði því ekki snertimark fyrir tólf árum síðan.