Breska Ríkisútvarpið (BBC) hefur beðist afsökunar á mistökum starfsmanns sem leiddu til þess að niðrandi orð um Manchester United birtust á skjám landsmanna í beinni útsendingu í morgun. 'Manchester United er rusl' voru skilaboðin sem birtust neðst í útsendingu BBC á fréttaborða þar sem helstu fréttir hverju sinni renna í gegn.

Það var starfsmaður BBC, Scott Bryan sem vakti athygli á mistökunum í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í morgun og nú hefur BBC þurft að biðjast afsökunar í beinni útsendingu í fréttatíma sínum.

Útskýringin sem gefin var út vegna mistakanna var sú að starfsmaður hjá ríkismiðlinum hafi óvart birt texta í umræddum borða þegar að hann var að læra að skrifa inn í hann.

,,Áðan birtist texti á fréttaborðanum okkar sem tengdist Manchester United. Ég vona að stuðningsmenn félagsins hafi ekki móðgast en leyfið mér að útskýra hvað fór úrskeiðis. Bak við tjöldin var verið að kenna starfsmanni á fréttaborðann. Umræddur einstaklingir setti þá fram tilviljunakennda setningu og sú setning birtist því miður í beinni útsendingu. Við biðjumst afsökunar á þessum mistökum. Við vildum bara útskýra þetta," sagði fréttaþulur BBC í beinni útsendingu fyrr í dag.