Aflraunakonan Katrín Tanja Davíðsdóttir tók til máls á ráðstefnu ESPN um kvennaíþróttir í Bandaríkjunum í gær þar sem fremstu íþróttakonur heims komu saman ásamt konum sem vinna við íþróttir í fremstu röð.

Um er að ræða árlega ráðstefnu til að vekja athygli á afrekum kvenna og fór fram í Bandaríkjunum. Hægt er að sjá umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan ásamt yfirliti yfir það sem Katrín Tanja ræddi um.

Katrín lýsti því í byrjun hvernig það kom til að hún fór í CrossFit.

„Ég fæddist með mikið keppnisskap, hvort sem það var í íþróttum eða í keppnum við litla bróðir minn, við vorum alltaf að finna einhverjar keppnir okkar á milli. Þegar ég varð sex ára byrjaði ég í fimleikum. Ég var eiginlega of stór fyrir fimleika og var aldrei neitt góð í fimleikum en ég lærði þar að vinna fyrir hlutunum. Sumir vinir mínir voru að æfa nýja hluti og náðu þeim strax en það tók mig yfirleitt nokkrar tilraunir. Á endanum náði ég sömu hlutunum en ég þurfti að leggja mun meira á mig,“ sagði Katrín um íþróttabakgrunn sinn.

Katrín Tanja í upphýfingu.
fréttablaðið/eyþór

„Þegar ég var sextán ára fékk ég nóg af fimleikum, ég fann að þetta var ekki rétt fyrir mig en um leið vissi ég hvað ég elskaði styrktaræfingarnar og var iðulega að biðja um meiri æfingar. Þá prófaði ég frjálsar íþróttir og var mjög hrifin af undirbúningnum í frjálsum en vissi í raun ekki í hvaða grein ég ætti að keppa. Tveimur árum síðar, sumarið 2011 var ég smá áttavilt enda ekki með íþrótt, engin markmið og ekkert til að stefna að. Þá var allstaðar í fréttunum að Annie Mist Þórisdóttir sem er núna ein af mínum bestu vinkonum, var nýkrýndur meistari í CrossFit. Þegar við sáum þetta skoruðu mamma mín og amma á mig að prófa þetta. Ég skellti mér á það og eftir þrjár vikur var ég viss um að ég ætlaði mér á heimsleikana, mér fannst CrossFit vera sniðið að mér. Hver dagur snýst um styrktaræfingar, það er hægt að bæta hlaupagetuna en þetta eru líka fimleikar, róður, lyftingar. Það er því alltaf hægt að bæta sig.“

Katrín Tanja kom fram með Liz Cambage, leikmanni úr WNBA, Becky Lynch sem er í WWE, Shelly-Ann Fraser-Pryce sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2008 og 2012. Sage Steele sem stýrir einum stærsta þætti ESPN stýrði umræðunni.

Katrín Tanja rifjaði upp heimsleikana 2014 þegar hún fylgdist með að heiman eftir að hafa misst af heimsleikunum.

„Stundum gerast hlutir sem virðast vera þeir verstu í stöðunni en það reynist eitthvað sem maður lærir heilmikið af. Þegar ég byrjaði í CrossFit komst ég strax á heimsleikana en ég var ekki þar til að keppa heldur sem þátttakandi. Ég var í fremstu röð en á sama tíma var ég að gera margt annað, í námi og að þjálfa og ég var sátt. Í undankeppninni fyrir heimsleikana 2014 kemur klifur upp kaðla sem var minn veikleiki og ég missti af heimsleikunum og ég brotnaði strax niður. Ég vissi að það væri líklegt að ég myndi missa af heimsleikunum og ég var ekki með neitt annað planað um sumarið en að undirbúa mig fyrir heimsleikana, ég vissi að ég væri að æfa með ekkert markmið meðal fólks sem væri að æfa fyrir heimsleikana,“ sagði Katrín Tanja sem byrjaði að æfa með Annie Mist Þórisdóttir í aðdraganda leikanna.

„Það var erfitt um tíma en Annie Mist sem fékk mig til að prófa CrossFit á sínum tíma var að æfa fyrir Heimsleikana og ég varð besti æfingarfélagi sem hún gat fengið, ég veitti henni samkeppni á hverjum degi. Það hjálpaði mér í aðraganda leikanna árið 2014 en ég var mjög fegin þegar þeir voru búnir. Þá voru allir óskrifaðir blað og ég sagði við sjálfa mig að ég myndi aldrei missa af öðrum leikum sem ég reyndi að taka þátt í. Ég fór að vinna í andlega hlutanum og með þjálfaranum í að stýra æfingunum betur með það að markmiði að bæta mig á hverjum degi í staðin fyrir að horfa á einhverjar niðurstöður. Á þessum tíma féll ég í lögfræði sem var óvænt þar sem ég var góður nemandi en það reyndist heillaskref. Ég tók mér eina önn í frí sem hefði ekki gerst ef ég hefði náð prófinu og þar sá ég að ég vildi einbeita mér að CrossFit og hafa það sem atvinnu.“

Þá rifjaði Katrín Tanja upp titilvörnina árið 2016.

„Eftir að hafa misst af leikunum árið áður kem ég árið 2015 og stend upp sem sigurvegari. Ári síðar kom ég með það að markmiði að sýna að þetta var engin tilviljun árið áður. Þá var ég ákveðin í að sýna að við hefðum unnið fyrir þessu og áttum þetta allt skilið. Sama ár fellur amma mín frá, besti vinur minn og klettur í mínu lífi. Á leikunum 2016 gerði ég allt fyrir hana og lagði harðar að mér fyrir hana. Ég man að oft þegar þrautirnar voru búnar hafði ég ekki hugmynd hvernig ég fór að þessu en ég vissi að hún var með mér í öllum þrautunum. Sá titill er mér afar kær.“