Tiger Woods sneri aftur inn á golfvöllinn um helgina eftir langa fjarveru og lék með syni sínum á PNC Championship mótinu þar sem þekktustu karlkylfingar heims léku með fjölskyldumeðlimum.

Tiger sem er af mörgum talinn einn besti kylfingur allra tíma lék með syni sínum, Charlie Woods sem er tólf ára gamall.

Goðsögnin Tiger virtist njóta þess að fylgjast með syni sínum og er margt líkt með feðgunum.

Þeir léku seinni hring mótsins á 57 höggum en náðu ekki að halda í við feðgana John Daly og John Daly yngri.

Það eru tíu mánuðir liðnir síðan Tiger lenti í alvarlegu bílslysi þegar hann velti bifreið sinni í Los Angeles. Á dögunum staðfesti Tiger að læknarnir hefðu sagt við hann að það hefði verið til umræðu að fjarlægja annan fótinn.

Það gleður því stuðningsmenn Tigers að sjá hann aftur inn á vellinum. Tiger deilir metinu yfir flesta sigra (82) á PGA-mótaröðinni með Sam Snead og er næst sigursælasti karlkylfingur heims á risamótunum fjórum.