Heimsleikarnir í CrossFit hefjast í Madison, Bandaríkjunum í dag þar sem Ísland er með fimm fulltrúa í kvennaflokki og einn í karlaflokki.

Þá á Ísland fulltrúa í flokki unglinga (drengir 14-15 ára), eldri keppenda (60+) og fjölmarga sem keppa innan ákveðinna aldursflokka.

Opnunarhátíðin hófst klukkan 14:00 að íslenskum tíma og fer fyrsta þrautin fram síðar í dag. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu frá leikunum.

Alls á Ísland sex fulltrúa í aðalkeppninni. Í kvennaflokki eru Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Sara Sigmundsdóttir, Eik Gylfadóttir og Þuríður Erla Helgadóttir skráðar til leiks. Í karlaflokki er Björgvin Karl Guðmundsson eini fulltrúi Íslands.

Veðbankarnir spá því að Katrín Tanja og Sara komi til með að berjast um silfrið í kvennaflokki og að Tia-Clair Toomey hreppi titilinn hraustasta kona heims þriðja árið í röð.

Í karlaflokki þykir veðbönkunum líklegt að Mathew Fraser vinni enn einn sigurinn og Björgvini Karli er spáð fimmta sæti á leikunum.