Lionel Messi og liðs­­fé­lagar hans í heims­­meistara­liði Argentínu í knatt­­spyrnu sýndu snör við­­brögð og gætu hafa forðað því að illa færi við heim­komu til Argentínu í gær er liðinu var ekið í opinni rútu í áttina að höfuð­­stöðvum argentínska knatt­­spyrnu­­sam­bandsins. Þetta sýnir mynd­band sem hefur farið í dreifingu á sam­­fé­lags­­miðlum.

Á mynd­bandinu sést að Messi og fjórir aðrir liðs­­fé­lagar hans, sem sátu aftast í rútunni uppi á stalli, voru ná­lægt því að flækjast í raf­­­magns­­línu sem lá yfir eina af götum Buenos Aires, höfuð­­borgar Argentínu.

Skömmu áður en aftasti hluti rúturnar var undir raf­­­magns­­línunni tóku þeir eftir henni og náðu að beygja sig undir hana. Allir nema miðju­maðurinn Leandro Par­edes sem fékk línuna framan í sig með þeim af­leiðingum að der­húfa hans flaug af höfði hans.

Erfitt er að full­yrða hvað hefði tekið við ef leik­­mennirnir flækst í raf­­­magns­­línunni en þarna tókst leik­­mönnum þó að forða sér frá erfiðum að­­stæðum.

Fjöl­­menni var saman­komið í Buenos Aires þegar að flug­­vél argentínska lands­liðsins lenti í borginni en leik­­menn höfðu þá ferðast frá Doha í Katar til Rómar á Ítalíu og þaðan til Argentínu.

Lands­­mönnum hefur verið gefið frí í dag til þess að fagna á­­fanga lands­liðsins og verður blásið til sigur­há­­tíðar, meðal annars við Obelisc minnis­varðann, en þetta er í þriðja skiptið í sögunni sem Argentína verður heims­­meistari í knatt­­spyrnu.