Lionel Messi og liðsfélagar hans í heimsmeistaraliði Argentínu í knattspyrnu sýndu snör viðbrögð og gætu hafa forðað því að illa færi við heimkomu til Argentínu í gær er liðinu var ekið í opinni rútu í áttina að höfuðstöðvum argentínska knattspyrnusambandsins. Þetta sýnir myndband sem hefur farið í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Á myndbandinu sést að Messi og fjórir aðrir liðsfélagar hans, sem sátu aftast í rútunni uppi á stalli, voru nálægt því að flækjast í rafmagnslínu sem lá yfir eina af götum Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu.
Skömmu áður en aftasti hluti rúturnar var undir rafmagnslínunni tóku þeir eftir henni og náðu að beygja sig undir hana. Allir nema miðjumaðurinn Leandro Paredes sem fékk línuna framan í sig með þeim afleiðingum að derhúfa hans flaug af höfði hans.
Erfitt er að fullyrða hvað hefði tekið við ef leikmennirnir flækst í rafmagnslínunni en þarna tókst leikmönnum þó að forða sér frá erfiðum aðstæðum.
Fjölmenni var samankomið í Buenos Aires þegar að flugvél argentínska landsliðsins lenti í borginni en leikmenn höfðu þá ferðast frá Doha í Katar til Rómar á Ítalíu og þaðan til Argentínu.
Landsmönnum hefur verið gefið frí í dag til þess að fagna áfanga landsliðsins og verður blásið til sigurhátíðar, meðal annars við Obelisc minnisvarðann, en þetta er í þriðja skiptið í sögunni sem Argentína verður heimsmeistari í knattspyrnu.
¡CUIDADO CON LOS CABLES MUCHACHOS! Insólito momento en la llegada de los campeones del mundo a Argentina.
— ESPN Argentina (@ESPNArgentina) December 20, 2022
Se le voló la gorra a Leandro Paredes. pic.twitter.com/mUfGmOTQdU