Sir Alex Ferguson, einn besti knattspyrnustjóri sögunnar, mun ekki koma að leit Manchester United að nýjum þjálfara eftir að Ole Gunnar Solskjaer var sagt upp á dögunum.

Ferguson er í guðatölu innan Manchester United eftir að hafa leitt liðið í gegnum gullaldartímabil félagsins. Hann situr í stjórn félagsins en ekki verður leitað til hans samkvæmt heimildum ESPN.

Manchester United er að leita að fimmta knattspyrnustjóra félagsins frá því að Ferguson tilkynnti að hann væri hættur fyrir átta árum.

Það fellur í skaut Darren Fletcher, fyrrum leikmanns félagsins sem er nú tæknistjóri (e. technical director) og John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála að sjá um þjálfaraleitina.

Þegar Ferguson tilkynnti að hann væri hættur störfum átti hann stóran þátt í því að David Moyes tók við af honum.

Þá var Ferguson hliðhollur Solskjaer sem lék lengi vel undir stjórn Skotans.