Sindri Hrafn Guðmundsson og Dagbjartur Daði Jónsson keppa fyrir hönd Missisippi State University á meistaramóti NCAA í frjálsum íþróttum utanhúss í kvöld.

Íslendingarnir voru efstir á landsvísu í undankeppninni fyrir meistaramótið og eru því líklegir til að berjast um gullverðlaunin í Eugene.

Fimm Íslendingar hafa unnið til gullverðlauna á lokamóti NCAA.

Sindri Hrafn átti lengsta kastið í undankeppninni með kasti upp á 79,83 metra sem er næst lengsta kastið í sögu undankeppninnar.

Dagbjartur kom rétt á eftir Sindra með kasti upp á 78,51 metra en hann hefur lengst kastað 78,66 metra á þessu ári.

Stuttu áður hafði Dagbjartur haft betur gegn Sindra í lokamóti ársins í SEC-deildinni sem Missisippi State keppir í. Það leiddi til þess að Dagbjartur var valinn nýliði ársins í SEC-deildinni.

Næsti maður á eftir þeim félögum, Tyriq Horsford sem keppir sömuleiðis fyrir Missisippi var fimm metrum styttri en Íslendingarnir í undankeppninni.