Fyrsta kast Sindra var upp á 79,83 metra sem er tæpum metra frá besta kasti ferilsins. Það dugði Sindra til sigurs í keppninni sem fór fram í Jacksonville.

Dagbjartur Daði Jónsson sem keppir fyrir hönd Missisippi State líkt og Sindri lenti í öðru sæti í undankeppninni. Fyrra kast Dagbjarts var 70,13 metrar en hann bætti upp fyrir það með 78,51 metra kasti í öðru kasti.

Í viðtali við Fréttablaðið á dögunum hafði Dagbjartur orð á því að hann og Sindri væru líklegast að fara að berjast um gullið í lokakeppni NCAA í júní.

Þriðja besta kastið í undankeppninni á landsvísu kom frá liðsfélaga þeirra hjá Missisippi State, Tyriq Horsford, sem var fimm metrum styttra en kast Dagbjarts.

Íslendingarnir því sigurstranglegir fyrir lokakeppnina en samkvæmt upplýsingum frá FRÍ hafa fimm Íslendingar unnið til gullverðlauna í meistaramóti frjálsra íþrótta í bandaríska háskólakerfinu.

Ísland mun því að hið minnsta eiga tvo fulltrúa á meistaramóti NCAA sem fer fram í Eugene, Oregon eftir tvær vikur.

Vigdís Jónsdóttir sem keppir í sleggjukasti og Erna Sóley Gunnarsdóttir sem keppir í kúluvarpi, reyna að öðlast þátttökurétt í lokamótinu í dag og hlauparinn Baldvin Þór Magnússon og kringlukastarinn Thelma Lind Kristjánsdóttir um helgina.