Ben Simmons, leikmaður Brooklyn Nets, er búinn að höfða mál gegn Philadelphia 76ers vegna tuttugu milljóna dala sem hann telur félagið skulda sér. 76ers telur að hann hafi brotið samning sinn við félagið.

Von er á því að málið fari fyrir gerðardómstól og gæti sett fordæmi til framtíðar fyrir leikmenn sem neita að leika fyrir lið í von um að fá skipti til annars liðs.

Simmons tilkynnti forráðamönnum 76ers fyrir tímabilið að hann myndi aldrei aftur leika fyrir félagið og neitaði að mæta til æfinga síðasta haust.

Þegar sektirnar byrjuðu að safnast upp mætti Simmons til æfinga en tók ekki virkan þátt. Hann fékk síðar undanþágu frá æfingum og leikjum vegna andlegrar heilsu en 76ers segja að hann hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins.