Katrín Tanja Davíðsdóttir lenti í öðru sæti á heimsleikunum í CrossFit sem kláruðust í nótt. Ástralska ofurkonan Tia-Clair Toomey bar sigur úr býtum fjórða árið í röð.

Með því varð Toomey fyrsta konan til að vinna titilinn hraustasta kona heims fjögur ár í röð.

Toomey var í sérflokki í úrslitunum þar sem fimm konur börðust um titilinn. Ástralinn fékk 1025 stig og Katrín Tanja kom næst með 665 stig.

Fyrir annað sæti og árangur sinn í greinunum fékk Katrín Tanja 134 þúsund dollara. Áður var hún búin að tryggja sér sex þúsund dollara með því að komast í úrslitahelgina.

Hún fékk því 18,75 milljónir fyrir árangur sinn um helgina og rúmlega 19,5 milljónir fyrir árangur sinn á heimsleikunum þetta árið.

Þá fékk Katrín Tanja hin árlegu aukaverðlaun „Spirit of the Games“ sem sá aðili sem þykir hafa skarað fram úr fyrir keppnisanda sinn á leikunum.