Sigurvin Ólafsson, þjálfari Lengjudeildarliðs KV yfirgefur stöðu sína hjá félaginu eftir næsta leik liðsins. Hann mun í kjölfarið gerast aðstoðarþjálfari Eiðs Smára Guðjohnsen hjá FH. Sigurvin hefur einnig starfað sem aðstoðarþjálfari KR.

KV greinir frá því í færslu á samfélagsmiðlum að Sigurvin muni stýra sínum síðasta leik hjá félaginu gegn Þrótti Vogum á miðvikudaginn. ,,Við þökkum Venna fyrir frábæra tíma hjá félaginu, árangurinn talar sínu máli og við getum ekki verið stoltari af okkar manni."

Í gær tilkynnti karlalið FH í knattspyrnu um ráðningu nýs þjálfara, Eið Smára Guðjohnsen, fyrrum atvinnu- og landsliðsmann í knattspyrnu. Eiður skrifaði undir tveggja ára samning við félagið en hann tekur við liðinu af Ólafi Jóhannessyni sem var á dögunum sagt upp störfum.

Fljótlega fóru af stað sögusagnir um mögulega aðstoðarþjálfara Eiðs Smára hjá FH og sagði Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar frá því í færslu á Twitter að Sigurvin myndi yfirgefa KR en KV er venslalið félagsins.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Sigurvin mun starfa innan raða FH. Hann var leikmaður liðsins á árunum 2006-2007 og varð meðal annars Íslandsmeistari með félaginu.