Aron Guðmundsson
Laugardagur 27. ágúst 2022
09.00 GMT

Valur og Breiðablik hafa um áratugi trónað á toppi íslenskrar kvennaknattspyrnu með þrettán bikarmeistaratitla hvort og eru um leið sigursælustu lið efstu deildar frá upphafi. Breiðablik með 18 Íslandsmeistaratitla og Valur 12.Valskonur eru ríkjandi Íslandsmeistarar undir stjórn íslensku knattspyrnugoðsagnarinnar Péturs Péturssonar en þær glíma nú við grýlu sem hefur elt liðið undanfarinn áratug.

Valur hefur nefnilegast ekki orðið bikarmeistari í kvennaflokki síðan árið 2011 þegar félagið vann sinn þrettánda titil með 2-0 sigri á erkifjendum sínum í KR. Gullaldartímabil Valskvenna í bikarkeppninni var án efa árin 1984-1988 þegar að liðið einokaði bikarmeistaratitilinn. Eftir það fór að líða lengra á milli bikarmeistaratitlanna.

Liðið hefur þó haft betur gegn Breiðabliki á tímabilinu til þessa. Liðin hafa mæst einu sinni í sumar, á Kópavogsvelli í leik sem Valur vann með einu marki gegn engu. Þá sitja þær í 1. sæti Bestu deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Breiðablik.

Bikarinn eftirsótti
Eyþór Árnason/Fréttablaðið

Blikakonur hafa titil að verja í leik dagins eftir að hafa borið sigur úr býtum gegn Þrótturum í úrslitaleiknum í fyrra. Innan leikmannahóps liðsins eru leikmenn sem hafa unnið þennan titil áður þó ekki megi draga úr áföllunum sem hafa dunið á liðinu í aðdraganda leiksins.

Tveir af bestu leikmönnum liðsins, fyrirliðinn Ásta Eir Árnadóttir og landsliðskonana Agla María Albertsdóttir eru báðar fjarverandi vegna meiðsla.Hefð getur hins vegar skipt máli í svona aðstæðum og í því tilfelli er sagan með Breiðabliki undanfarin ár.

Frá því að Valskonur unnu síðasta bikarmeistaratitil sinn árið 2011 hefur Breiðablik orðið bikarmeistari fjórum sinnum.Þessi tvö sigursælu lið eiga sér sögu í úrslitaleik bikarkeppninnar, sögu sem teygir sig aftur til ársins 1981 þegar liðin mættust fyrst í úrslitaleik keppninnar. Alls hafa liðin spilað átta úrslitaleiki sín á milli í keppninni og eftir þá stendur staðan jöfn. Fjórir sigrar á lið.

Um er að ræða tvö bestu lið landsins um þessar mundir og bikar á línunni. leikar hefjast klukkan 16:00 en hægt er að kaupa miða á völlinn á heima­síðu Tix.is

Bikarmeistaratitla liðanna:

Valur = 13

1984, 1985, 1986, 1987, 1988, 1990, 1995, 2001, 2003, 2006, 2009, 2010, 2011

Breiðablik = 13

1981, 1982, 1983, 1994, 1996, 1997, 1998, 2000, 2005, 2013, 2016, 2018, 2021

Fyrri bikarúrslitaleikir liðanna:

1981: Breiðablik 4-0 Valur

1982: Breiðablik 1-1 Valur

(7-6 eftir vítaspyrnukeppni)

1986: Valur 2-0 Breiðablik

1996: Breiðablik 3-0 Valur

1997: Breiðablik 2-1 Valur

2001: Valur 2-0 Breiðablik

2006: Breiðablik 3-3 Valur

(1-4 eftir vítaspyrnukeppni)

2009: Valur 1-1 Breiðablik

(5-1 eftir framlengingu)

Valur: 4 sigrar
Breiðablik: 4 sigrar

Tölfræðimolar:

  • Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals og íslenska landsliðsins er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu bikarkeppni kvenna með 52 leiki
  • Natasha Anasi, fyrirliði Breiðabliks í fjarveru Ástu Eirar hefur einu sinni farið í bikarúrslit. Þá með ÍBV þar sem liðið laut í lægra haldi gegn Breiðabliki
  • Olga Færseth er markahæsti leikmaður bikarkeppni kvenna frá upphafi með 47 mörk í 44 leikjum
  • Tveir núverandi leikmenn Vals urðu bikarmeistarar með félaginu síðast árið 2011, það eru þær Mist Edvardsdóttir og Elín Metta Jensen
Athugasemdir