Valur hafði betur 29-28 þegar liðið fékk FH í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda í síðasta leik 13. umferðar Olísdeildar karla í kvöld.

Þar með hefur Valur borið sigur úr býtum í sjö deildarleikjum í röð og hefur nú 17 stig líkt og Selfoss í þriðja til fjórða sæti deildarinnar.

FH-ingar byrjuðu leikinn raunar betur og gestirnir voru 11-7 yfir um miðbik fyrri hálfleiks. Þá skellti Valsvörnin í lás og þar fyrir aftan var Hreiðar Levý Guðmundsson í miklu stuði í marki heimamanna.

Valsmenn voru 17-14 yfir í hálfleik og héldu tveggja til þriggja marka forystu allt þar til FH gerði áhlaup undir lok leiksins sem dugði þó ekki til. FH og ÍR hafa 16 stig hvort lið í fimmta til sjötta sæti deildarinnar.

Anton Rúnarsson og Ásbjörn Friðriksson voru í sérflokki í liðum sínum en Anton skoraði 11 mörk fyrir Val og Ásbjörn 10 fyrir FH.

Finnur Ingi Stefánsson og Agnar Smári Jónsson komu næstir með sex mörk hvor fyrir Valsara og Arnar Freyr Ársælsson skoraði fimm mörk fyrir FH-liðið.