Sigurður Örn Ragnarsson varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna heildarkeppnina í járnkarli (e. Ironman) þegar hann kom fyrstur í mark í keppninni í Barcelona um helgina.

Sigurður sem keppir fyrir hönd Breiðabliks kom í mark á 8:42:01 og var sex mínútum á undan næsta manni í sinni fyrstu keppni í járnkarli.

Á vef Þríþrautarsambandsins kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem Íslendingur vinni heildarkeppnina.

Í járnkarli er synt 3,8 kílómetrar í opnu vatni, hjólað 180 kílómetra og að lokum hlaupið heilt maraþon. Sigurður synti á 49;40, hjólaði á 4:30:10 og hljóp maraþonið að lokum á 3:14:15.

Með árangri sínum öðlaðist Sigurður þátttökurétt í sínum aldursflokki á Heimsmeistaramótinu í járnkarli sem fer fram á Hawaí eyjum á næsta ári.