Körfuboltamaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hafði betur í deilu sinni við körfuknattleiksdeild ÍR um vangoldin laun hans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ber körfuknattleiksdeild ÍR að greiða Sigurði Gunnar 1.866.000 krónur auk dráttarvaxta, sem og 800.000 kórnur í málskostnað.

Forsaga málsins er sú að í lok október árið 2019 skrifaði Sigurður Gunnar undir samning við ÍR. Fram kom meðal annars í samningi aðilanna að hann skyldi vera í mjög góðu líkamlegu formi allt keppnistímabilið.

Hann skyldi taka þátt í öllum æfingum og leikjum félagsins nema lögmæt forföll hömluðu. Leikmaðurinn skyldi tilkynna félaginu um öll meiðsl, sem hann hefði orðið fyrir eða verður á samningstímanum og gera sitt besta til þess að ná sér sem fyrst með réttri endurhæfingu í samráði við fagfólk.

Sleit krossbandi í kjölfar þess að hann samdi

Um var að ræða verktakasamning sem átti að gilda til tveggja ára með endurskoðunarákvæði milli keppnistímabila. Hinn 25. október 2019, í fyrsta leik Sigurðar Gunnars eftir undirritun samningsins, slasaðist hann alvarlega á fæti og var að mati læknis talinn ófær um að spila körfuknattleik í 12 mánuði eftir atvikið.

Í samræmi við samning aðila greiddi stefnandi stefnda greiðslur fyrir október og nóvember 2019, en frá og með desember 2019 féllu samningsbundnar greiðslur niður. Um miðjan nóvember 2019 fóru fram viðræður á milli samningsaðila um þá stöðu sem komin var upp og um það hvort Sigurður Gunnar tæki að sér að vinna önnur verkefni fyrir ÍR á veikindatímabilinu.

Lagði ÍR fram drög að nýjum verktakasamningi sem fól í sér breytingar á greiðslum sem mælt hafði verið fyrir um í upphaflegum samningi sem gert var ráð fyrir að myndi gilda fram til 1. september 2020, þegar nýtt leiktímabil hæfist. Sigurður Gunnar hafnaði því að undirrita viðaukann, þar sem hann var ekki reiðubúinn að falla frá samningsbundnum greiðslum samkvæmt samningi aðila.

Samningar náðust ekki á milli aðila og hinn 27. janúar 2020, sendi lögmaður leikmannsins innheimtubréf til ÍR með kröfu um greiðslu að fjárhæð 560.000 krónur fyrir desember 2019 í samræmi við samning aðila, en að frádregnum innborgunum vegna þjálfunar sem greitt var fyrir í desember árið 2019.

Frekari krafta Sigurðar Gunnars ekki óskað

ÍR hafnaði kröfu Sigurðar Gunnars að efna upphaflegan samning þeirra á þeim grundvelli að um verktakasamning væri að ræða og að leikmaðurinn ætti ekki kröfu til endurgjalds fyrir verk sem ekki væri innt af hendi.

Vinnu Sigurðar Gunnars við þjálfun var ekki óskað í framhaldinu og farið fram á að hann yrði ekki viðstaddur æfingar, leiki og viðburði á vegum félagsins. Formaður körfuknattleiksdeildar sagði svo uppsamningi félagsins við Sigurð Gunnar í lok mars árið 2020.

Fyrir dómi byggði Sigurður Gunnar málflutning sinn á því að samningur aðila geri ráð fyrir því að hann geti orðið fyrir meiðslum við störf sín fyrir stefnda og því geti meiðsli sem hlotist hafa í starfi ekki leyst ÍR undan greiðsluskyldu.

Meiðsli geti ekki leyst félög undan greiðslum

Félagið hafi skuldbundið sig til að greiða tilgreindar fjárhæðir frá undirritun samningsins og þar til honum yrði rift eða sagt upp með lögmætum hætti. Í samningnum sé gert ráð fyrir að leikmaðurinn geti slasast og að meiðsli leysi félagið ekki undir samningsskyldum.

Þá er á því byggt að óhappið hafi orðið í leik þegar Sigurður Gunar spilaði fyrir ÍR, eða á vinnutíma. Einnig er á því byggt að meiðsli séu hluti af íþróttum í atvinnumennsku og að samningur aðila geri ekki með neinum hætti ráð fyrir því að Sigurður Gunnar eigi einn að bera áhættuna af því að meiðast.

Þvert á móti geri samningurinn ráð fyrir því að menn geti meiðst og að það hafi ekki áhrif á greiðsluskyldu stefnda, enda um að ræða lögmæt forföll. Þá hafi það staðið ÍR nær að taka fram í samningnum ef meiðsli áttu að leysa hann undan samningi. Verður félagið að bera hallann af því að það hafi ekki verið gert.

Deilt um hvort greiða bæri óháð vinnuframlagi

ÍR hélt því hins vegar fram að Sigurður Gunnar hafi ekki uppfyllt kröfur um að vera í mjög góðu líkamlegu formi allt keppnistímabilið.

Leikmaðurinn geti ekki átt rétt á greiðslu fyrir verk sem ekki hafi verið innt af hendi, hvergi komi fram í samningnum að laun verði greidd óháð framlagi og slík túlkun verði ekki leidd af samningnum. Hafi vilji samningsaðila staðið til þess hefði það þurft að koma fram í samningnum.

Þá er því mótmælt að meiðsli takmarki ekki skyldur stefnda. Samningur aðila sé tæmandi um þá kostnaðarliði sem greiðsluskylda stefnda nái til vegna meiðsla og takmarkist við greiðslu kostnaðar vegna sjúkraþjálfunar.

Töldu að semja hefði átt sérstaklega um algjöra greiðsluskyldu

ÍR tekur fram að verktakar beri sjálfir ábyrgð á því að tryggja hagsmuni sína ef slys ber að höndum, t.d. með því að kaupa slysatryggingar. Með því takmarki þeir tjón sitt geti þeir ekki unnið umsamin verk.

ÍR-ingar benda á að þó að íþróttamenn fái greidd verklaun fyrir að stunda íþrótt sína, þá jafnist það ekki á við atvinnumennsku. Íþróttastarf, sem byggi á framlagi sjálfboðaliða og styrkjum fyrirtækja, verði aldrei sett undir hatt atvinnumennsku.

Í ljósi þessa geti ÍR ekki fallist á þá nálgun Sigurðar Gunnars að verksamningur aðila feli í sér algjöra greiðsluskyldu stefnda samningstímann á enda óháð vinnuframlagi hans. Slíkt hefði þurft að koma afdráttarlaust fram í samningi aðila.

ÍR talið bera áhættuna að slysi leikmannsins

Forráðamenn ÍR telja að þar sem Sigurður Gunnar hafi spilað körfubolta sem atvinnumaður í mörg ár, hefði átt að hafa frumkvæði að því að taka af allan vafa um þennan skilning sinn á samningnum.

Dómurinn telur að áhætta vegna slysa, sem eiga sér stað í samningsbundnum körfuknattleikjum, hvíli á ÍR og af þeim sökum skuli félagið greiða Sigurði Gunnari umsamdar greiðslur þó hann hafi ekki getað innt af hendi vinnuframlag sitt.

Það er frá upphafi samningsins þar til samningnum var sagt upp í kjölfar þess að keppni var hætt vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins í mars 2020.