Körfuboltamaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur skrifað undir samning við Hött sem verður nýliði í Dominos-deild karla í körfubolta á næsta keppnistímabili.

Höttur kynnti hann til leiks á blaðamannafundi sem haldinn var á Barion bryggjunni brugghúsi í hádeginu í dag.

Sigurður Gunnar sem leikur sem miðherji fer til Egilsstaða frá ÍR þar sem hann hann var á mála síðustu tvö keppnistímabil. Hann sleit krossband í hné síðasta haust og lék ekkert með Breiðhyltingum á síðustu leiktíð.

Þessi öflugi leikmaður sem sleit barnsskónum og spilaði sín fyrstu tvö tímabil í meistaraflokki hjá KFÍ var svo leystur undan samningi hjá ÍR-ingum í vor. Höttur hefur nú tryggt sér krafta Sigurðar fyrir komandi átök í deildinni.

Sigurður er 31 árs gamall en hann hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari á ferli sínum, tvisvar sinnum með Grindavík og svo einu sinni sem leikmaður Keflavíkur. Þá hefur Sigurður leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð, Grikklandi og Frakklandi.

Höttur mætir Grindavík í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar 1. október næstkomandi.