Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við Sigurð Þorsteinsson um að leika með liðinu næsta keppnistímabil.

Sigurður spilaði með liði Hattar á Egilsstöðum sem féll úr efstu deild í nýafstaðinni deildarkeppni.

Sigurður er uppalinn Ísfirðingur og hóf ferilinn með KFÍ en söðlaði um árið 2006 er hann flutti sig til Keflavíkur en þar lék hann til ársins 2011 og svo með liði Grindavíkur til 2014.

Þá hefur hann leikið erlendis með Solna Vikings í Svíþjóð og grísku liðunum Machites Doxas Pefkon og Gymnastikos Larissa.

Eftir árin í atvinnumennskunni kom hann heim og lék með Grindavík 2017 en söðlaði um þaðan til ÍR þar sem hann spilaði í tvær leiktíð og nú í vetur lék hann svo með Hetti Egilsstöðum.